148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær var kynnt ný skýrsla sem Talnakönnun gerði fyrir Samtök sparifjáreigenda um kjör forstjóra, kaupaukakerfi þeirra, sem virðist verða sífellt hugvitsamlegra. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að tíu launahæstu forstjórarnir eru með milli 7 og 8 millj. kr. á mánuði. Teljast verður vafasamt að það endurspegli síaukna verðmætasköpun viðkomandi einstaklinga, heldur er hér iðulega um að ræða fyrirtæki sem endurreist voru eftir hrun fyrir fé almennings úr bönkum og lífeyrissjóðum.

Misskipting er alltaf slæm í sjálfu sér. Ranglætið er alltaf rangt. Þessi afkáralegu launakjör eru til marks um sóun. Það er slæmt fyrir atvinnulífið þegar svo stór hluti arðsins fer til fárra einstaklinga og það er slæmt þegar upp kemur sú freisting að fegra afkomu fyrirtækis til að auka greiðslur til sín. Það er slæmt fyrir mennina sjálfa þegar þeir mæla manngildi sitt í milljónum. Það er líka slæmt fyrir samfélagið í heild að misskipting sé þar fram úr hófi. Samkenndin hverfur og innviðirnir fúna. Brauðmolakenningin hefur aldrei staðist próf veruleikans.

Forstjórastéttin talar af fyrirlitningu um höfrungahlaup þegar vinnandi fólk vill fá sanngjörn laun fyrir vinnu sína eða reynir að knýja fram betri almenn lífskjör. Forstjórarnir virðast telja sig í einhverju allt öðru landi, kannski sjálfu aflandinu, og í sínu sérstaka feitukattahlaupi. En það er ekki svo. Það eru þeir, forstjórarnir, helstu forkólfarnir í SA, sem knýja áfram kröfugerð annarra stétta með yfirgengilegri sjálftöku sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)