148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sumum finnst rosalega ósanngjarnt að borga tekjuskatt, að þeir vinni sér inn eitthvað og af því sé tekinn skattur. Það er sjónarmið sem ég skil. Ég er ósammála, en ég skil það.

Það er til fólk í þessu landi sem vinnur sér inn og þarf að borga með því. Þetta eru öryrkjar sem verða fyrir svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu þegar svo vill til að tekjurnar valda skerðingu á tveimur stöðum, annars vegar 100% skerðingu og síðan skerðingu á öðrum stofni líka. Það held ég að allir hljóti að geta verið sammála um að sé óréttlátt. Píratar hafa lagt fram frumvarp, að frumkvæði meðlims þess ágæta flokks, um að draga verulega úr þessari skerðingu. Fyrir liggur einnig einhvers konar kostnaðarmat sem reyndar mætti uppfæra en við erum að tala um tölur í kringum 10–11 milljarða.

Flokkur fólksins, sá ágæti flokkur, og reyndar einnig Píratar, með breytingartillögu á sínum tíma, lögðu einnig til að ellilífeyrir almannatrygginga myndi ekki skerðast við það að aldraðir myndu hafa atvinnutekjur.

Kostnaðurinn þar, aftur eru tölurnar svolítið á reiki eftir því hvenær maður mælir þær — sömuleiðis þarf að taka tillit til breytinga sem voru gerðar nýlega — en þá erum við að tala um sirka milljarð, einn og hálfan kannski. Það er skalinn sem við erum að tala um. Núna liggur fyrir í fjármálaáætlun að lækka eigi neðra þrep tekjuskattsins um 1%. Það eru 14 milljarðar.

Mig langar til að spyrja um forgangsröðun. Hér er um verulegt óréttlæti að ræða. Við getum borið það saman við mjög smávægilegt óréttlæti að mínu mati sem er tekjuskattur; það er ekki hægt að segja okkur að það sé eitthvað ómögulegt fyrir okkur að laga það óréttlæti sem felst í almannatryggingakerfinu. Þvílíkan frumskóg af óréttlæti hef ég ekki séð í lagabókstaf og ef vilji væri til þess á Alþingi að laga þetta gætum við það léttilega miðað við núverandi fjármálaáætlun.