148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Mig langar að gera að umræðuefni nokkuð sem tengist störfum þingsins, sem er sú tímaþröng sem þingið er að lenda í með þann mikla aragrúa mála sem eru að koma inn á færibandi frá ríkisstjórninni. Það er verið að afgreiða þau á miklum hraða í gegnum þingið, bæði með umræðum hér í þingsal og í nefndum. Þar er eitt risavaxið mál sem er sagt væntanlegt en ekki hefur komið fram mér vitandi enn þá. Það er ný löggjöf er varðar persónuvernd og innleiðing á Evróputilskipun þar að lútandi.

Það er alveg ljóst að áhrifin á bæði einstaklinga og atvinnulíf eru veruleg. Og það er lágmarkskurteisi gagnvart þinginu að gefa þinginu tilhlýðilegan tíma til að ræða þetta mikilvæga mál og fara vandlega yfir alla anga þess og veita líka tilhlýðilegan tíma til umsagna um jafn umfangsmikið mál. Við höfum ákaflega lítið heyrt af því hér í þingsalnum annað en að í sífellu er boðað að þetta eigi að taka gildi 25. maí. Ég sé ekki alveg hvernig það á að geta gengið upp. Ég auglýsi eftir þessu ágæta frumvarpi frá dómsmálaráðherra. Ég held að þinginu muni ekki veita af þeim tíma sem við höfum fyrir höndum núna fram að áætluðum þinglokum til þess að fara yfir jafn umfangsmikið áhrifamál og hér er um að ræða.

Það gefur augaleið að það skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið sem starfar á sameiginlegum innri markaði Evrópu, að þessi löggjöf verði innleidd hér tímanlega og vel. Við þurfum að hafa tíma til að vanda til verka. Það er í raun algjörlega óboðlegt að málið sé að koma jafn seint fram og raun ber vitni þegar um jafn risavaxið mál er að ræða sem þingið verður einfaldlega að fá góðan tíma til að fara yfir.