148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu hér og vekja máls á þeim mikilvæga þætti heilbrigðisþjónustunnar sem utanspítalaþjónustan sannarlega er. Eins og fram kom hjá málshefjanda hefur þörfin fyrir utanspítalaþjónustu, þ.e. sjúkraflutninga, aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Á undanförnum misserum hefur sérhæfð heilbrigðisþjónusta færst í ríkari mæli en áður til Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og til einkarekinna læknastofa. Íbúar landsbyggðarinnar hafa því oft þurft að leita sér þjónustu fjarri heimabyggð með þeim kostnaði og oft óþægindum sem það getur valdið.

Í október sl. skipaði forveri minn í embætti heilbrigðisráðherra starfshóp forstjóra heilbrigðisstofnananna sex, sjúkrahúsanna tveggja og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um sérfræðilæknaþjónustu á heilbrigðisstofnunum. Hlutverk hópsins var að greina hvaða sérfræðilæknaþjónusta er þegar veitt innan heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, á hvaða formi slík þjónusta er veitt og hvernig samstarfi stofnananna er háttað. Þá var hópnum falið að greina hvaða þjónustu væri æskilegt að veita á heilbrigðisstofnunum landsins og hvernig væri best að tryggja aðgengi sjúklinga að þeirri þjónustu.

Á vinnustofu forstjóra og framkvæmdastjóra stofnananna fyrir skömmu var rætt um hvaða sérgreinaþjónustu ætti að veita á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og hvert hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri ætti að vera í veitingu þeirrar þjónustu. Ég nefni þetta hér því að með þessari vinnu er hugmyndin að færa hluta sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu til íbúanna fremur en þeir fari til þjónustunnar. Með meiri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni minnkar þörfin fyrir sjúkraflutninga.

Ég vil í þessu sambandi einnig nefna þá áherslu mína að nýta betur en gert hefur verið þau sjúkrarými sem til staðar eru á heilbrigðisstofnunum um landið með því að íbúar klári sína legu í heimabyggð eftir aðgerð á Landspítala eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Með því móti er unnt að styrkja heilbrigðisstofnanir svo ekki sé talað um ávinninginn fyrir íbúana sem komast fyrr heim en ella.

Árangur þessa er þegar sýnilegur í þeirri aukningu sem sjá má í sjúkraflugi frá Landspítala. Fjöldi sjúklinga sem fluttur hefur verið með sjúkraflugi frá Landspítalanum á sjúkrasvið heilbrigðisstofnana úti um land hefur nær tvöfaldast frá árinu 2014.

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi nefnir einnig aukið álag á utanspítalaþjónustuna samfara fjölgun ferðamanna hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni voru um 4% sjúkraflutninga á árinu 2017 vegna erlendra ríkisborgara, auk þess sem óljóst var með ríkisfang 5% til viðbótar þar sem þeir höfðu ekki fullnægjandi tíu stafa kennitölu. Því er ljóst að umtalsverður hluti sjúkraflutninga kemur til vegna ferðamanna.

Á Suðurlandi fjölgaði útköllum vegna sjúkraflutninga um 4,8% á milli áranna 2016 og 2017. Hlutfall erlendra ríkisborgara í sjúkraflutningum var 10,7% á árinu 2017 og eknir kílómetrar í sjúkraflutningum á Suðurlandi einu voru 600.000 á árinu 2017. Utanspítalaþjónustan er því vaxandi þáttur nú þegar í heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Virðulegur forseti. Hv. málshefjandi spurði sérstaklega um nokkra þætti sem tengjast utanspítalaþjónustu. Í fyrsta lagi var spurt um hvort stefnumörkun um þessa þjónustu væri væntanleg. Því er til að svara að undanfarnar vikur hefur starfshópur skoðað mögulegan ávinning, faglegan og fjárhagslegan, af aukinni aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að sjúkraflugi hér á landi. Hópurinn hefur einnig metið aðra mögulega kosti varðandi sjúkraflug með þyrlum, m.a. með hliðsjón af tillögum þeim sem lagðar voru fram í skýrslu fagráðs sjúkraflutninga frá júní 2017. Ég vænti þess að fá skýrslu og tillögur starfshópsins mjög fljótlega.

Ég hef þegar lýst því yfir að í kjölfarið muni ég setja af stað heildarendurskoðun á skipulagi sjúkraflutninga hér á landi.

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar á skipulagi og utanumhaldi málaflokksins og nefndi þar breytingu á samsetningu fagráðs sjúkraflutninga og aukningu á stöðugildi yfirlæknis utanspítalaþjónustu.

Þeir þættir sem þingmaðurinn nefnir verða hluti þeirrar heildarendurskoðunar sem ég nefndi hér áðan.

Ég vil þó sérstaklega taka fram að fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa komið á minn fund og lýst áhuga sínum á að koma með virkari hætti að skipulagningu sjúkraflutninga. Björgunarsveitarmenn gegna mikilvægu hlutverki utanspítalaþjónustu hér á landi. Þeir eru oft fyrstir á vettvang slysa eða annarra útkalla, hvort sem er í hlutverki vettvangsliða eða vegna útkalla á hálendinu. Ég mun m.a. leggja áherslu á að virkja aðkomu Landsbjargar í þeirri endurskoðun sem fram undan er.

Þingmaðurinn spyr í þriðja lagi hvort unnið sé eftir þeim skýrslum og úttektum sem gerðar hafa verið undanfarin ár á vettvangi utanspítalaþjónustu um skipulag málaflokksins, menntun starfsfólks og notkun sérhæfðrar sjúkraþyrlu.

Í janúar 2008 skilaði nefnd um sjúkraflutninga á Íslandi tillögum til þáverandi heilbrigðisráðherra. Þær tillögur voru síðan endurmetnar á árinu 2012. Unnið hefur verið eftir þeim tillögum sem hóparnir lögðu fram, þó með tilliti til þeirra breytinga sem hafa orðið á undanförnum árum með sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Sjúkraflutningaskóli hefur verið rekinn sem eining innan Sjúkrahússins á Akureyri síðan árið 2002. Hlutverk og markmið skólans er að skipuleggja, stjórna og sjá um að mennta sjúkraflutningsmenn í grunnnámi, framhaldsnámi og símenntun. Undanfarin ár hefur verið unnið að heildarendurskoðun á námi sjúkraflutningamanna í góðu samráði við fagráð sjúkraflutninga. Umfang skólans hefur vaxið á síðustu misserum í takt við aukna þörf fyrir sjúkraflutninga. Sem dæmi má nefna að heildarfjöldi þátttakenda í námskeiðum Sjúkraflutningaskólans fóru úr 282 á árinu 2016 í 725 þátttakendur á árinu 2017.

Síðasta spurning málshefjanda lýtur að því hvort fyrirhugað sé að taka upp tímabundið prufuverkefni um að starfrækja sérhæfða sjúkraþyrlu sem lið í að tryggja landsmönnum aðgengi að bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Eins og ég nefndi hér fyrr í svari mínu mun ég á næstunni fá tillögu frá starfshópi sem m.a. hefur verið að skoða mögulegan ávinning af rekstri sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Í umræðum um notkun slíkrar þyrlu hér á landi hefur einna helst verið horft til þess að stytta útkallstíma, að tryggja að veikur eða slasaður einstaklingur komist sem fyrst á sérhæft sjúkrahús eða að sérmenntað starfsfólk komist sem fyrst til hins slasaða eða sjúka. Okkur er öllum ljóst að viðbragðstími getur skipt sköpum varðandi afdrif einstaklinga sem hafa fengið heilaskaða eða hjartaáfall eða slasast alvarlega.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt áherslu á að jafna eins og kostur er aðgang allra landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þar skiptir utanspítalaþjónusta miklu máli. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 er sett fram það markmið að í 90% tilvika verði bráðaútköllum af flokki F1 og F2 í dreifbýli sinnt innan 20 mínútna frá útkalli. Þessum markmiðum vil ég ná með góðri samvinnu við alla þá aðila sem að sjúkraflutningum koma hér á landi.