148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:48]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu gríðarlega mikilvæga máli, en hlutverk og áskoranir í utanspítalaþjónustu og sjúkraflutningum er eitthvað sem hefur ekki notið nægilegrar athygli þar sem heilbrigðisþjónusta hefur verið færð og dregin saman frá dreifðari byggðum til höfuðborgarsvæðisins. Ég hef starfað sem sjúkraflugmaður og þekki vel af eigin reynslu þá brýnu þörf sem er á þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Virðulegi forseti. Útköllum í sjúkraflugi hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Það er svo að á síðustu tíu árum hefur þeim útköllum fjölgað um 25% og standa á síðasta ári í um 200 útköllum á ári og það sem af er ári núna hjá Landhelgisgæslunni í yfir 80 útköllum.

Það er nauðsynlegt að byggja enn frekar upp sjúkraflugið á landsvísu vegna þess að hátæknisjúkrahús landsmanna er staðsett í Reykjavík. Það er nú einu sinni svo að helmingur þjóðarinnar, eða ríflega það, býr úti á hinu svokallaða landi. Það þarf að hafa aðgengi að þessari þjónustu. Við erum einfaldlega það fámenn að við getum ekki rekið fleiri en eitt hátæknisjúkrahús.

Sjúkraflug er tvíþætt. Annars vegar er því sinnt á hraðfleygum flugvélum sem eru búnar jafnþrýstibúnaði, en hins vegar á þyrlum. Eiginleikar þessara tækja eru mjög ólíkir og kannski langt mál að fara í það hér.

Það er mín skoðun að sjúkraflugið skuli vera á forræði Landhelgisgæslunnar. Þar er reynslan, þekkingin, þjálfunin, utanumhald og innviðir, ásamt því að þar væri hægt að tryggja rekstur slíkrar þjónustu. Það yrði mikil bót að sérhæfðri sjúkraþyrlu, eins og hér er nefnt, en það verður að hafa í huga að þar þarf reksturinn, þjálfunin og utanumhaldið að vera í höndum aðila sem er til þess bær.

Í samhengi við það skulum við huga að staðsetningu hátæknisjúkrahússins, sem nú er verið að festa á umferðareyjunni í Vatnsmýri. Þar þarf að vera hægt að hafa aðflug og koma (Forseti hringir.) sjúklingum bæði til og frá sjúkrahúsinu. En þar sem það er staðsett núna og þar sem áætlun ríkisstjórnarinnar er að hafa það til allrar framtíðar er einfaldlega sú að það verður ekki hægt á þyrlum.