148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:55]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Undanfarin misseri hefur umræða farið fram um heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga og fagna ég því að sú umræða sé komin inn í þingið. Meðal annars hefur verið rætt um þau áhrif sem mikill fjöldi ferðamanna kunni að hafa á heilbrigðiskerfið. Það eykur álag á heilbrigðiskerfið og fjölgun íbúa og ferðamanna er staðreynd sem við þurfum að bregðast við. Það er því miður algengt að erlendir ferðamenn á ferð um landið slasist eða þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda. Það er afar mikilvægt að við tryggjum eftir fremsta megni að rétt og örugglega verði brugðist við þessum aukna þunga eins og hann leggst á heilbrigðisþjónustuna.

Ferðamannastraumurinn er mestur hér á sumrin en það er einmitt tíminn þegar margir starfsmenn í heilbrigðisþjónustu eru í fríi. Því er ljóst að hér er verkefni sem krefst þess að brugðist sé skjótt og rétt við.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar, sem nú er til meðferðar hjá þinginu, er nokkuð fjallað um þessa þætti. Meðal annars er það tilgreint sem markmið í sjúkraflutningum að í 90% tilvika verði bráðaútköllum í dreifbýli sinnt innan 20 mínútna frá útkalli sem er mjög verðugt markmið. Þá er það einnig sett sem markmið að jafna aðgang sjúklinga um land allt að þjónustu sérfræðilækna. Aðgerðir sem grípa skal til til þess að svara þessum vandamálum eru m.a. endurskipulagning sjúkraflutninga og gerð heildstæðrar heilbrigðisstefnu. Þær aðgerðir eru klárlega hluti af því að ná þessum markmiðum.

Forseti. Ég legg áherslu á þá von mína að ný stefnumótun í heilbrigðismálum komi til með að koma öllum þeim sem á henni þurfa að halda til góða, íbúum og ferðamönnum, bæði í dreifbýli og þéttbýli, því að öll eigum við rétt á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu.