148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:02]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna þessari umræðu þar sem ég tel að öflug utanspítalaþjónusta sé mikilvægt skref til að tryggja öryggi okkar sem víðast um land. Ég tel það líka mikilvægt sem kom fram í svari hæstv. ráðherra að við verðum að efla menntun þeirra sem starfa við sjúkraflutninga, þ.e. fjölga menntuðum bráðaliðum. Það er best að sem flestir starfandi sjúkraflutningamenn séu lærðir bráðaliðar og séu staðsettir sem víðast um landið. Oft er um langan veg að fara á næstu sjúkrastofnun.

Þó að þróunin hafi því miður verið sú á landinu að hefðbundin heilbrigðisþjónusta hafi farið minnkandi víða um land megum við ekki gefast upp. Því fagna ég sérstaklega því sem fram kom í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra að ráðuneytið vinni að því að efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni með því að nýta þau sjúkrarými sem þar eru til staðar og láta fólk klára legu sína í heimabyggð. Ég held að með því móti styrkjum við heilbrigðisstofnanir víða um land.

Ég vil þó gjalda varhuga við einu, að horfa á sjúkraþyrlur sem einhverja allsherjarlausn. Þær geta vafalaust bætt öryggi til muna og stytt viðbragðstíma en ég held að það sé kannski fullmikil bjartsýni að þær geti leyst af hólmi sjúkrabifreiðar með fullnægjandi hætti þar sem oft er um langan veg að fara. Það fer dálítið eftir hvar sjúkraþyrlan er staðsett og það tekur dálítinn tíma að fara á staðinn. Svo verðum við náttúrlega líka að hugsa um kostnaðinn. Kostnaður við sjúkraþyrlu má ekki bitna á annarri nauðsynlegri starfsemi.

Ég fagna svo sérstaklega því sem fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 þar sem sett er fram það markmið að bráðaútköllum í dreifbýli verði í 90% tilvika sinnt innan 20 mínútna. Ég held að ef okkur tekst það munum við bjarga mörgum mannslífum.