148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem er mikilvæg og þörf. Meðal markmiða laga um heilbrigðisþjónustu er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma. Sjúkraflutningar snúa að öryggi íbúa og þar með búsetuskilyrðum um allt land.

Níutíu ára saga rekstrar Rauða krossins á sjúkrabílum er senn á enda, samkvæmt ákvörðun hæstv. heilbrigðisráðherra, og ekkert plan virðist vera um framhaldið. Sanngjarnt uppgjör við Rauða krossinn er ekki í augsýn og er það áhyggjuefni. Fagráð um sjúkraflutninga tók saman í fyrra skýrslu um notkun á þyrlum hér á landi í þeim tilgangi að sinna flutningi á bráðveikum og slösuðum sjúklingum. Skýrslan var m.a. kynnt þingmönnum og sveitarstjórnarfólki á Suðurlandi. Mér þótti sú kynning mjög áhugaverð og mæli með því að sú leið verði skoðuð nánar.

Norðmenn hafa góða reynslu af slíkum þyrlum þar sem vegir liggja í bröttum fjallshlíðum og skilyrði til lendingar eru slæm. Þyrlur til sjúkraflutninga henta betur við vissar aðstæður og eru ódýrari í innkaupum og rekstri en þyrlur Landhelgisgæslunnar, sem hafa aðra kosti eins og að geta flogið lengra og við slæm veðurskilyrði. Sérhæfð meðferð skilar bestum árangri við alvarleg slys og bráð veikindi, en til þess að hún skili besta mögulega árangri þarf að sjálfsögðu að veita hana eins fljótt og mögulegt er.

Til þess að hægt sé að móta framtíðarstefnu sjúkraflutninga þarf að skoða möguleika á notkun sjúkraþyrlu í samvinnu við sjúkraflutninga á landi, Landhelgisgæslu og sjúkraflug. Ég tek undir með þeim sem benda á að Suðurlandið sé best til þess fallið að láta á það reyna í fyrstu atrennu.