148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fyrst vil ég víkja að því óhagræði sem ríkir í samningu ríkisins um kaup á sjúkraflutningum. Til þess að tryggja sem besta nýtingu fjármuna og sem besta þjónustu á þessu mikilvæga sviði er eðlilegt að þjónustan sé í höndum sveitarfélaganna eins og það var fyrir árið 1990. Um þetta meðal annars ályktaði fundur Félags slökkviliðsstjóra nýverið.

Best er að slökkvilið landsins sinni sjúkraflutningum. Samlegðaráhrifin eru augljós og þegar litið er til mannafla, menntunar, starfsstöðva, búnaðar og styrks. Á Suðurlandi eru sjúkraflutningar í höndum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en á Suðurnesjum eru þeir í höndum Brunavarna Suðurnesja svo dæmi sé tekið. Þar sem sjúkraflutningar eru í höndum heilbrigðisstofnana má færa rök fyrir því að þjónustan sé dýrari þar sem samlegðaráhrifin við slökkviliðið eru ekki fyrir hendi. Það vantar stöðugleika í þessa samninga og fyrirsjáanleika. Samningar eru í mörgum tilvikum aðeins til eins árs í senn sem er allt of stuttur tími. Það vantar alla langtímahugsun í þetta mál, þessu verðum við að breyta. Þetta snýst um að nýta fjármuni sem best og veita sem besta þjónustu.

Hvað sérstaka sjúkraþyrlu varðar vil ég segja: Ég fagna slíkum hugmyndum en við verðum að horfa raunhæft á málið. Rekstur slíkrar þyrlu er dýr. Ef við ætlum að fara þá leið á sá rekstur að vera í höndum Landhelgisgæslunnar svo hægt sé að styrkja hana um leið.

Að lokum vil ég koma aðeins inn á reksturinn á sjúkrabifreiðum. Hann hefur verið í höndum Rauða kross Íslands en hugmyndir eru uppi um að breyta því. Eins og er á reksturinn einnig að fara undir slökkviliðin. Það verður að hafa fullt samráð við fagaðila í þessu máli. Þetta varðar ekki bara sjúkrabifreiðarnar sjálfar heldur allan búnaðinn sem þeim fylgja, viðhald o.s.frv. Þekkingin er hjá slökkviliðunum og þar á þessi rekstur að vera.