148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:08]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Sjúkraflutningar eru mikilvægur hluti af grundvallarheilbrigðisþjónustu og ég fagna því að hæstv. ráðherra hyggst fara í heildarendurskoðun á þeim málaflokki í ráðuneyti sínu. Einnig er ég ánægð með það sem ráðherra sagði áðan að nýta, og það hefur verið gert nú þegar og hún hyggst halda þeirri stefnu áfram, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni enn betur en gert hefur verið.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er gríðarleg aukning á sjúkraflutningum víða um land og jafnvel um tugi prósenta á sumum svæðum. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Ein ástæða er fjölgun ferðamanna. Það eru aðrar ástæður eins og t.d. bara hækkaður lífaldur íbúa.

Þeir aðilar sem reka og stjórna sjúkraflutningum á Íslandi hafa lengi þurft að glíma við erfitt og óstöðugt rekstrarumhverfi. Oft hafa verið gerðir samningar til skamms tíma við íslenska ríkið sem gerir þeim erfiðara um vik að efla og þróa þjónustuna. Það á einkum við í dreifðari byggðum landsins þar sem sjúkraflutningamenn eru á bakvöktum, en á stærri stöðum eru sjúkraflutningar og slökkvilið rekin sem ein eining, eins og áður hefur komið fram, og eru sjúkraflutningar þar skilgreindir sem aukaverkefni þó að stærsti hluti verkefnanna séu sjúkraflutningar. Þetta þarf að endurskoða.

Einnig er nauðsynlegt, eins og aðrir hafa nefnt í dag, að efla menntun sjúkraflutningamanna. Við höfum góð fordæmi frá nágrannalöndum okkar í þeim efnum og ættum að geta horft þangað.

Mig langar til að undirstrika að við þurfum að endurnýja bifreiðar í samræmi við þörf á hverjum stað. — Ég þarf að hlaupa mjög hratt hérna yfir marga punkta.

Að lokum langar mig til að nefna aðeins sjúkraflugið. Þetta þarf náttúrlega allt að skoðast í samhengi varðandi nýtingu á þyrlum Landhelgisgæslu og svo sérútbúna sjúkraþyrlu.

En aðalatriðið hérna í blálokin er að við þurfum náttúrlega að skoða þetta heildstætt. Við þurfum að finna hagkvæmar útfærslur um hvernig við getum bætt þjónustuna og aukið öryggi landsmanna.