148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir hvert orð hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Hans greining var bæði rétt og nákvæm.

Sjúkraflutningar þurfa að þróast í samhengi við allar samfélagsbreytingar og gagnrýnin sem hefur komið fram í þessari umræðu snýst fyrst og fremst um vöntun á þessari þróun. Staðreyndin er að í stóru og fámennu landi eru mörg vandamál sem verður alltaf dýrt að leysa en ef við leysum þau vel skilum við af okkur betra samfélagi.

Tillagan um sérhæfðar sjúkraþyrlur er ein þeirra sem ég er mjög spenntur fyrir. Við höfum kannski almennt farið mjög dýrar leiðir í þyrlukaupum vegna mjög umfangsmikilla þarfa Landhelgisgæslunnar við björgunarstörf en sérhæfðar sjúkraþyrlur gætu verið umtalsvert ódýrari sé rétt að málum staðið og gætu jafnvel orðið til þess að búa til talsverðan sparnað víða annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Rekstrarformið er kannski spurning seinni tíma, en þyrlurnar þurfa að geta verið í biðstöðu og verið komnar í loftið fljótt og helst vera með aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins til að stytta tímann á slysstað.

Það er auðvitað ýmislegt annað sem þarf að breytast. Við horfum fram á tæknibreytingar sem valda því að sjúkrahúsþjónusta verður dýrari og tilhneigingin er að hafa sjúkrahúsþjónustuna á færri stöðum. En það mun ekki ganga að hafa bara sjúkrahúsþjónustuna í Reykjavík, Akureyri og kannski fáeinum öðrum stöðum þannig að þangað til einhver ótrúlega flott tækni gerir það að verkum að við getum haft hvers kyns nútímatækni í sjúkrabílum, þyrlum og hvaðeina verður þörf á því að leggja í þann kostnað að hafa góða sjúkrahúsþjónustu í boði á stöðum þar sem það er kannski óhagkvæmt að öðru leyti að reka hana. Svo ætti íslenskt hugvit að fara í að smætta og gera ódýrari mörg þessara tækja sem geta ekki verið á minni (Forseti hringir.) heilbrigðisstofnunum í dag. Kjarni málsins er að við verðum að láta sjúkraflutninga virka og við verðum að hafa þjónustuna úti um allt land.