148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Vilhjálmi Árnasyni, fyrir þessa góðu og gegnu umræðu. Ég hef áður komið í pontu Alþingis og talað um stöðu Ólafsfirðinga og sjúkrabifreiðarinnar sem tekin var af þeim í fyrrasumar. Enn þann dag í dag er ekkert viðbragðsteymi til staðar á Ólafsfirði. Enn þá er enginn sem hleypur til og veitir fyrstu hjálp á meðan Ólafsfirðingar bíða eftir því að sjúkrabíll komi frá Siglufirði eða Dalvík. Sjúkrabíllinn er áfram til staðar en þeir tveir sérfræðingar sem höfðu réttindi til þess að veita alla hjálp og neyðarhjálp um leið og til þeirra var leitað hafa ekki fengið að fara í endurmenntun. Nei, auðvitað ekki, þeim var sagt upp störfum. Við erum að tala um það að reyna að mismuna ekki fólkinu okkar eftir búsetu.

Ég er orðin furðu lostin yfir því að það er eins og líf og limir Ólafsfirðinga séu bara miklu minna virði en annarra almennt. Ég átta mig ekki á því hvers vegna er byrjað á að fjarlægja sjúkrabílinn áður en viðbragðsteymið hefur a.m.k. verið sett á laggirnar. Er ekki verið að byrja á öfugum enda? Ég kalla þetta flumbrugang, fljótfærni og algjörlega á skjön við vilja bæjarbúa, algjörlega á skjön við vilja allra á Tröllaskaga sem kölluðu eftir því að þessi sjúkrabifreið fengi að halda áfram að veita Ólafsfirðingum það öryggi sem hún gerir í raun. Yfir þúsund undirskriftir söfnuðust. Við erum að tala um að það eru fleiri undirskriftir en byggja allan Ólafsfjörð.

Það er eitt að tala um jafnræði úti á landsbyggðinni og að við eigum að sitja við sama borð, þarna er það t.d. alls ekki gert. Þetta virðist einkennast af, eins og ég segi, flumbrugangi og fljótfærni. Ég hvet til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra taki alvarlega til athugunar þennan framkvæmdastjóra heilbrigðismála (Forseti hringir.) á Norðurlandi.