148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[16:15]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir góða umræðu og málefnalega í þessu mikilvæga máli. Ég vil fara yfir nokkur atriði sem hafa komið fram. Þessi umræða speglast algjörlega í því að þetta er heilbrigðismál og byggðamál. Þetta er stórt byggðamál og samlegðaráhrifin eru mörg í því sem er gert til að styrkja byggðirnar.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir um að reyna að styrkja heilbrigðisstofnanir úti á landi. Með aukinni menntun sjúkraflutningafólks getur það sinnt miklu af þeim störfum sem þarf að sinna á þessum heilbrigðisstofnunum við að hafa fleiri í þjónustu á spítölunum úti á landi og annað slíkt og það er líka mikið byggðamál að jafna aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu.

Varðandi ferðamennina sem komust mikið til umræðu er það bara staðreynd að þau verkefni, þótt þau séu ekki hæsta prósentan, taka lengri tíma. Ferðamenn eða gestir okkar eru oftast á hálendinu, lengra inni í landinu og fjær sjúkrahúsunum og útstöðvum sjúkraflutninganna. Það eru tungumálavandamál o.fl. Maður hefur líka heyrt af allt að 90 manna rútum á ferð um vegina — og hvað gerist ef slík rúta lendir á annarri rútu eða eitthvað kemur upp á? Þá er líka óvíst með getuna á fámennum svæðum þar sem sjúkraflutningamaður, slökkviliðsmaður og björgunarsveitarmaður er einn og sami maðurinn.

Mig langar að koma rétt í lokin inn á sjúkraþyrluna og þakka fyrir góðar undirtektir í því mikilvæga máli. Landhelgisgæslan hefur leitar- og björgunarhlutverk. Hér erum við að tala um heilbrigðisþjónustu sem á að veita, þetta eru tvö ólík hlutverk og kostnaðurinn við sjúkraþyrluna er minni en sú hagræðing sem hún skapar og hún er viðbót við það viðbragð sem við höfum í dag. Allt snýst þetta um öfluga heild mannafla, tækja eins og sjúkrabíla, (Forseti hringir.) þyrlu og flugvéla. Ég þakka góða umræðu.