148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Allir þeir sem eru áhugamenn um eflingu strandveiða við Ísland ættu í raun að fagna á þessum tímamótum þar sem stefnt er að því að heimila mesta magn á aflaheimildum inn í kerfið sem nokkru sinni hefur verið. Um er að ræða umtalsverða aukningu frá síðasta ári. Það er því í hróplegu ósamræmi við þá ákvörðun og þá samstöðu sem er um það mál að það skuli vera sá ágreiningur sem raun ber vitni um þetta mál. Það finnst mér ekki vera boðlegt. Það eru eðlilegar áhyggjur. Þær eru á rökum reistar. Það má reikna með því að verði ákvörðun tekin um óbreytt mál geti það leitt til deilna.

Ég mun ekki styðja málið eins og það lítur út í dag, en ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðsluna í trausti þess að hv. þingmenn í atvinnuveganefnd þingsins taki sig til og leiti leiða sem geta leitt til meiri og breiðari sáttar um málið í lokin.