148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

452. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Landssambandi lífeyrissjóða og Samtökum atvinnulífsins.

Í frumvarpinu er annars vegar mælt fyrir um fækkun varamanna í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda úr sjö í tvo og hins vegar um brottfall þeirra ákvæða í lögunum sem eru efnislega samhljóða ákvæðum í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem gilda þá jafnt um starfsemi Söfnunarsjóðsins. Í þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist vegna málsins er tekið undir þau sjónarmið sem liggja að baki markmiðum frumvarpsins, að óþarft sé að gera kröfu um svo marga varamenn í stjórn sjóðsins og að óþarft sé að tvítaka í lögum þau ákvæði í lögum um Söfnunarsjóðinn sem lagt er til að falli brott. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, Bryndís Haraldsdóttir, Óli Björn Kárason, formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Hildur Sverrisdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Víglundsson, Oddný G. Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Áheyrnarfulltrúi í nefndinni, Ólafur Ísleifsson, er samþykkur áliti þessu.