148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

misskipting eigna í þjóðfélaginu.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Þegar við skoðum jöfnuð á Íslandi þurfum við annars vegar að skoða hann út frá tekjudreifingu og hins vegar eignastöðu. Oft hefur verið bent á að alþjóðlega standi Ísland vel að vígi þegar kemur að jöfnuði í tekjudreifingu, en þar er þó fyllsta ástæða til að vera á varðbergi. Ég vísa þar til þeirrar launaþróunar sem við höfum séð annars vegar úti á hinum almenna markaði og var til umræðu í vikunni á fundi sem Samtök sparifjáreigenda héldu þar sem m.a. var farið yfir kaupauka í íslenskum fyrirtækjum og launaþróun stjórnenda. Hins vegar þekkjum við auðvitað líka umræðuna um kjararáð.

Hv. þingmaður spyr hvernig sú sem hér stendur hyggist beita sér í þessu máli. Það liggur fyrir til að mynda að hér mun á haustdögum koma fram frumvarp sem breyta mun fyrirkomulagi kjara æðstu embættismanna ríkisins til að tryggja að þau séu í takt við almenna launaþróun í landinu. Ég vonast til þess að við getum náð saman um þær breytingar. Þar með værum við að færa þá þróun í takt við það sem gerist á Norðurlöndunum og gætum um leið tryggt aukinn jöfnuð þegar kemur að hinu opinbera.

Ég sagði líka á ársfundi Samtaka atvinnulífsins að stjórnendur á hinum almenna markaði mættu ekki vísa ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika á láglaunafólk í landinu. Þess vegna þurfum við að taka það til opinnar umræðu hver sé eðlileg tekjudreifing í landinu. Á meðal þess sem ég hef sett á dagskrá á fundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins í maímánuði er að ræða hvernig við viljum sjá tekjudreifinguna þróast og hvaða aðferðum við viljum beita til að tryggja jafna tekjudreifingu, en eins og fram hefur komið ítrekað hjá ýmsum þeim hagfræðingum sem fást við þessi mál fer aukin hagsæld í raun og veru saman við tiltölulega mikinn jöfnuð sem er í alþjóðlegum samanburði tiltölulega mikill á Íslandi þegar kemur að tekjunum.

Nú er ég búin með tímann en þetta var um tekjurnar. (Forseti hringir.) Ég ætla að fá að ræða eignirnar í seinna svari mínu.