148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

kjör kvennastétta.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum bara nokkuð sammála um þær áherslur sem birtast einmitt í fjármálaáætlun og ég vísaði til áðan og lúta að eflingu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins.

Síðan þegar kemur að því sem tengist kjörum kvennastétta og ég tel að þurfi að vera á dagskrá í samtali okkar við aðila vinnumarkaðarins er það svo að ég hef haft forystu í því samtali. Það hefur staðið yfir með reglubundnum hætti allt frá því að núverandi ríkisstjórn tók við og hefur kannski sjaldan verið meira á síðari árum, það samtal sem hefur verið í gangi á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þar erum við að ræða aðgerðir sem tengjast félagslegum stöðugleika í samhengi við efnahagslegan stöðugleika. Þar erum við þegar búin að sjá aðgerðir lagðar fram og aðrar boðaðar sem munu skipta máli bæði fyrir konur og karla í landinu. Og að sjálfsögðu eru kjör kvennastétta eitt af því sem þar verður lagt á borðið ásamt því sem ég nefndi áðan í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar, sem er bara hin almenna tekjudreifing í samfélaginu. Þegar við ræðum almennt um tekjudreifingu í samtalinu getum við ekki litið fram hjá því hvernig kynbundinn launamunur birtist og það er ekki bara í launamun milli sambærilegra starfa heldur líka á þessum kynbundna vinnumarkaði sem við er að eiga.