staða tjáningar- og upplýsingafrelsis á Íslandi.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu máli. Það er rétt að árið 2010 var þingsályktunin um tjáningarfrelsi samþykkt í þessum sal. Málinu var þá vísað til mín sem mennta- og menningarmálaráðherra. Og raunar vil ég geta þess að strax í framlögðum lagafrumvörpum um fjölmiðla, sem seinna urðu að lögum 2011, birtust áhrif þessarar þingsályktunartillögu sem þar komu inn ákvæði beint runnin upp úr þingsályktuninni, m.a. um vernd heimildarmanna, sem ekki höfðu verið í íslenskum prentlögum. Þá strax má segja að áhrifa ályktunarinnar hafi farið að gæta. Það er hins vegar rétt að ekki hafa nægjanlega miklar heimtur verið á því starfi sem unnið hefur verið. Ég vil þó halda því til haga að hópur um þessi mál starfaði á kjörtímabilinu 2013–2016 með fulltrúum ólíkra ráðuneyta undir forystu þáverandi framkvæmdastjóra Persónuverndar, ef ég man rétt.
Nú hef ég ákveðið að taka þá vinnu sem þá lá fyrir og skipa þann hóp sem hv. þingmaður vísaði, í undir forystu Eiríks Jónssonar prófessors, sem hefur sérhæft sig í tjáningarfrelsi. Sú nefnd á að fara yfir þau lagafrumvörp sem stýrihópurinn, sem starfaði hér á kjörtímabilinu 2013–2016, skilaði af sér. Þar undir heyra frumvörp um ærumeiðingar, hatursáróður, gagnageymd og ábyrgð hýsingaraðila sem og núverandi lög um heimildir til að beita fyrirfarandi tálmunum við tjáningu, svo sem í formi lögbanns. Nefndin á líka að taka til skoðunar tillögur um tjáningarfrelsi sem og skyldu opinberra starfsmanna til að tjá sig um brot sem þeir verða áskynja í starfi.
Eins og ég nefndi er það Eiríkur Jónsson, lögfræðingur og prófessor, sem stýrir starfinu, og Birgitta Jónsdóttir, sem þekkir þessi mál vel og er stjórnarformaður IMMI-stofnunarinnar, er skipuð í þessa nefnd af mér sem forsætisráðherra. Þarna sitja líka fulltrúar frá Blaðamannafélagi Íslands og dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti, því að þetta heyrir undir öll þessi ráðuneyti. Þegar við tölum t.d. um ærumeiðingar og annað slíkt heyrir það undir (Forseti hringir.) dómsmálaráðuneytið. Síðan situr þarna líka Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður og Páll Þórhallsson frá forsætisráðuneytinu. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég kem nánar að þessu í síðara svari.