staða tjáningar- og upplýsingafrelsis á Íslandi.
Virðulegi forseti. Maður hefði alveg viljað heyra meira af svarinu. Það sem ég er sérstaklega að velta fyrir mér er hversu mikinn tíma þetta hefur tekið. Þótt mér þyki, einum af fáum Íslendingum, óþolinmæði ekki vera dyggð heldur löstur, þá verð ég samt að segja að ég er orðinn frekar óþolinmóður gagnvart þessu máli.
Mér finnst reyndar tjáningarfrelsi almennt ekki tekið mjög alvarlega á Íslandi. Við höfum tilhneigingu til að gefa okkur að hérna sé allt með besta móti, svo skoðar maður löggjöfina og hún er oft hreinlega hlægileg ef ekki til skammar. Mig langar til þess að vita annars vegar hvenær við getum séð fram á þá tíma að sjá þessi frumvörp lögð fram og í öðru lagi hvað það er, ef hæstv. ráðherra er meðvitaður um það, sem stendur í vegi fyrir því. Þetta eru allt mikilvæg mál og það þarf að vanda til þeirra en fyrr má nú vera. Þetta eru ekki geimvísindi, þau eru að sumu leyti einfaldari reyndar ef út í það er farið. (Forseti hringir.)Hvað er það sem tefur þetta? Hvað er það sem gerir þetta svona umfangsmikið miðað við alla þá vinnu sem hefur átt sér stað nú þegar, því að hún er heilmikil?