148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

staða tjáningar- og upplýsingafrelsis á Íslandi.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, hvað tefur? Það er erfitt fyrir mig að svara því. Þetta hefur verið mikið áhugamál mitt lengi innan stjórnmálanna og þegar ég fór yfir þá vinnu sem þegar hafði verið unnin eins og ég nefndi, bæði á kjörtímabilinu 2009–2013 og 2013–2016, þá var það mín niðurstaða og mér fannst rétt að þessi hópur fengi tiltölulega skömm tímamörk. Ég ætla að vona að það standist, þ.e. hann á að skila af sér í tveimur áföngum, fyrir 1. október nk. og síðan fyrir 1. mars 2019.

Í síðari áföngunum er ég þá frekar að horfa til þess að hópurinn fari yfir gildandi upplýsingalög. Það hefur komið hér fram áður á vettvangi þingsins að ég telji fulla ástæðu til að fara yfir upplýsingalögin sem voru endurskoðuð 2012 og samþykkt þá ný upplýsingalög en þessi heimur er að breytast mjög hratt og við höfum séð það að við höfum dregist aftur úr. Ég hef vísað til að mynda til Noregs sem fyrirmyndar þegar kemur að birtingu opinberra upplýsinga. Þannig að þetta er tímaramminn. Ég tel að það liggi mjög góð gögn fyrir þannig að þetta ætti að vera raunhæft en hafandi síðan reynsluna af því að (Forseti hringir.) ætla mér að gera mjög mikið hratt þá ætla ég ekki að lofa því að þetta gerist (Forseti hringir.) en þetta er að minnsta kosti sá tímarammi sem hefur verið settur.