148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

skerðing bóta fólks í sambúð.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni þessa fyrirspurn sem lýtur að skerðingum hjá hjónum eða sambúðarfólki í hópi aldraðra og örorkulífeyrisþega.

Hér voru samþykktar breytingar á almannatryggingakerfinu 2016. Meðal þess sem var deilt um þá hvað varðar aldraða var að þeir sem voru í sambúð eða hjón fengu hlutfallslega minni kjarabætur en þeir sem bjuggu einir. Rökstuðningurinn með því á sínum tíma af hálfu þáverandi ríkisstjórnar var að mikilvægast væri að styðja við þá sem væru einir því að þar væri framfærslan þyngri en þegar um fleiri væri að ræða. Þessu var eigi að síður mótmælt, m.a. af þeirri sem hér stendur. Þessi lög voru svo samþykkt. Þau voru afrakstur starfshóps sem hafði starfað um allnokkurt skeið þar sem öryrkjar sögðu sig frá á lokametrum þeirrar vinnu, en fulltrúar eldri borgara tóku þátt í því að ná því samkomulagi sem var undirstaðan undir þetta frumvarp. Bara svo við rifjum upp söguna sem hv. þingmaður byggir sína fyrirspurn á.

Nú hafa fulltrúar Landssambands eldri borgara óskað eftir því að þessar breytingar sem voru gerðar á almannatryggingakerfinu, en þeir komu vissulega að undirbúningi þeirra á sínum tíma, verði metnar sérstaklega út frá því hvernig þær hafi komið út fyrir tekjulægri einstaklinga í hópi aldraðra. Sú vinna er farin af stað. Félagsmálaráðherra stýrir þeirri vinnu. Hann hefur óskað eftir tilnefningum m.a. frá forsætisráðherra í starfshóp, en ég veit að Landssamband eldri borgara mun eiga þrjá fulltrúa í þeim hópi. Það sem landssambandið setur á oddinn er að skoða sérstaklega tekjulægstu hópana í hópi aldraðra.

Hv. þingmaður nefnir líka örorkulífeyrisþega og vísar væntanlega til heimilisuppbótarinnar sem skerðist með þessum hætti hjá sambúðarfólki. Hv. þingmaður þekkir það að þeirri vinnu var aldrei lokið á sínum tíma 2016. Það varð ósætti um niðurstöður (Forseti hringir.) í málefnum örorkulífeyrisþega. Nú eru menn sestir aftur við borðið. Ég bind miklar vonir við að við getum komið okkur saman, stjórnmálamenn (Forseti hringir.) og fulltrúar örorkulífeyrisþega í ÖBÍ og Þroskahjálp, um ásættanlegar breytingar á kerfinu til hagsbóta (Forseti hringir.) fyrir örorkulífeyrisþega.