148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

skerðing bóta fólks í sambúð.

[11:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. En ég spyr hana þá aftur: Hvernig stendur á því og hvernig er hægt að verja þetta gagnvart stjórnarskránni? Er ekki bannað að mismuna?

Ég segi: Af hverju eina nefndina enn? Þetta er ekki flókið mál. Reynum að setja þetta inn í launasamninga. 20% ef þið búið saman, þá eruð þið skert, 20% hjá báðum ef þið viljið fara í hjónaband. Reynum að koma þessu inn í samninga um laun. Það gildir nákvæmlega sama um eldri borgara og öryrkja. Það gilda ekki önnur lög, nema þá ólög sem eru brot á mannréttindum. Þetta er ekkert flókið. Við eigum að sitja við nákvæmlega sama borð og aðrir. Meðan svo er ekki þá þarf ekki nefnd. Það þarf bara vilja okkar hérna inni til að breyta þessu, ég veit það. Vegna þess að ég hef enga trú á því að við hérna inni, 63 þingmenn, myndum samþykkja það að við yrðum skert um 20% af launum okkar bara fyrir það að búa með maka okkar.