148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

skerðing bóta fólks í sambúð.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr: Af hverju enn eina nefnd? Það er vegna þess sem ég sagði áðan; á sínum tíma var setið við þessi mál með fulltrúum allra flokka, með fulltrúum eldri borgara, fulltrúum öryrkja, fulltrúum vinnumarkaðarins. Ekki varð niðurstaða í málefnum örorkulífeyrisþega. Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp hafa beinlínis lýst því yfir að þau telji mjög mikilvægt að gerðar verði ákveðnar kerfisbreytingar á því kerfi sem við búum við í dag, að það verði einfaldað, að bótaflokkarnir verði endurskoðaðir. Ég hef sjálf sagt ég hefði viljað að sá hópur hefði verið skipaður, að gengið hefði hraðar að skipa þann hóp. Það tók tíma að skipa þann hóp en nú er búið að skipa hann. Verið er að boða fyrsta fundinn. Ég legg áherslu að sá hópur vinni hratt af því að þetta er mál sem á ekki að bíða. En við eigum að sjálfsögðu að reyna að ná einhverri niðurstöðu um það hvernig kerfið sjálft lítur út. Ég trúi ekki öðru en að allir hv. þingmenn séu sammála um það. Ég veit að hv. þingmaður situr sjálfur í nefndinni sem fulltrúi þingsins. Ég treysti á ykkur (Forseti hringir.) í þessum hóp, að þið munið ýta þessum málum hratt og örugglega áfram.