148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

26. mál
[13:40]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Að lögum er nú að verða dýrmætt frumvarp sem veitir hópi fatlaðs fólks möguleika á auknum lífsgæðum og við mörgum blasir jafnvel nýtt líf. Stefnt er að því að koma fleiri samningum við eins hratt og hægt er. Um það er ríkur vilji í velferðarnefnd.

Þetta er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og því reynir mikið á að bæði þessi stjórnsýslustig standi sig vel. Eitt af álitamálunum sem fram hafa komið er kostnaðarskipting. Við treystum því að fullkomin sátt verði um það og að það tefji ekki framþróun þessa mikilvæga verkefnis.

Við horfum til framtíðar með þessari lagasetningu, að notendastýrð persónuleg aðstoð verði meginform þjónustunnar við einstaklinga sem búa við fötlun. Þetta er viðkvæm, flókin og viðamikil lagasetning og mikilvægur hluti framkvæmdarinnar er reglugerðarsetning. Við treystum á að vel takist til.

Að lokum vil ég þakka fyrir frábæra vinnu og samvinnu nefndarinnar og þakka öllum þeim sem komið hafa að þessari lagasetningu, bæði á þessu þingi og fyrri þingum, því að þetta (Forseti hringir.) er orðin löng saga.