148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

27. mál
[13:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrst örstutt um þá breytingartillögu sem hér er. Hún er til samræmis á tímasetningum á frumvörpunum tveimur, þ.e. því sem við vorum að samþykkja og þessu frumvarpi. Með þessum lagasetningum eru lög um félagsþjónustu sveitarfélaga færð til þess horfs að þau taki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta eru mikilvæg tímamót og undirstrika þann vilja þingsins að fatlaðir einstaklingar njóti þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um. Við gerum einnig breytingar á lögunum til samræmis við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar er einna mikilvægast samspilið á milli NPA-þjónustu og almennrar þjónustu samkvæmt þessum lögum.

Vinna með frumvörpin hefur verið unnin samhliða og allir þeir sem komið hafa að þeirri vinnu eiga þakkir skildar. Lagasetningin í heild er mikið framfaraskref sem mun bæta þjónustu við borgara þessa lands og skerpa á þeim réttindum sem fólk hefur. Það er ástæða til að fagna því.