148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kom ekki fram nein ósk af hálfu nefndarmanna að fá ráðherra fyrir nefndina. Hann var ekki kallaður fyrir hana. En hann hefur fylgst með þessu máli og þekkir það mjög grannt. Ráðuneytið hefur verið nefndinni til aðstoðar við vinnslu á málinu. Mér finnst mikilvægt að við þingmenn horfum til þess að við viljum efla þingið. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar tökum við sérstaklega fram að mikilvægt sé að efla þingið. Ég tel að þetta mál sé eitt af þeim málum sem er dæmigert fyrir það að við viljum ganga þann veg að efla þingið. Við samþykktum hér á dögunum mál frá stjórnarandstöðunni, þingmannamál. Ég tel að við séum á góðri leið með að breyta starfsháttum Alþingis með máli eins og þessu í breiðri sátt og að frumkvæði atvinnuveganefndar.