148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég er aðeins undrandi yfir síðustu orðum þingmannsins en það getur verið misskilningur hjá mér. Ég hélt að það hefði verið óskað eftir því að ráðherra kæmi fyrir nefndina, í það minnsta held ég að það hafi verið rætt á einhverjum tímapunkti. Það er hins vegar áhugavert að fá hér á hreint að ráðherra hefur greinilega ekkert komið nálægt þessu máli, hvorki mætt fyrir nefndina né í þingsal til að tjá sig um það. Ég geri hins vegar ráð fyrir að menn hafi átt einhver símtöl við ráðuneytið um útfærslu á hinu og þessu. En ég les þetta þannig að ráðherra telji málið annaðhvort ekki það mikilvægt að hann þurfi að blanda sér í það eða sé einfaldlega fylgjandi því sem hér er verið að leggja fram.

Hér talaði formaður nefndarinnar um að það væri verið að efla þingið. Ég fæ nú ekki séð hvernig í ósköpunum þetta mál eflir þingið. Vissulega er það lagt fram af þingmönnum og þingnefnd. Það er ágætt. Við gerum það eiginlega alla daga, við þingmenn, að leggja fram þingmál. Það heitir ekki að efla þingið. Ég held hins vegar að málið geti verið þegar fram í sækir til vansa fyrir þingið. Ég held að vinnubrögðin við þetta mál séu í raun forkastanleg.

Í dag fyrir tæpum klukkutíma sat ég fund í atvinnuveganefnd þar sem enn var verið að breyta málinu, þar sem fram komu breytingartillögur til að lappa upp á málið, gera það skárra en það er í dag. Aðeins að bæta það. Svo á að fara að samþykkja það eftir smástund. Er þetta til að bæta vinnubrögð á Alþingi, efla þingið eins og hv. þingmaður orðaði það? Ég held ekki. Ég held að þetta mál sé verið að afgreiða núna í einhverju krampakasti vegna þess að strandveiðar byrja á þriðjudaginn ef ég man rétt. Það hefði verið nær, fyrst verið er að fara í svona vegferð, að byrja í fyrsta lagi fyrr eða þá bara segja: Stopp, við skulum gera þetta betur, förum í þetta á næsta ári.

En við erum komin á þann stað núna að mér sýnist að það sé einbeittur vilji til að klára þetta mál með einhverjum hætti. Það er þá sagt strax að þingflokkur Miðflokksins mun ekki greiða þessu máli atkvæði sitt.

Hér hefur líka verið sagt í þingsal, eða í það minnsta hefur komið fram, að þetta þingmál eigi að auka öryggi sjómanna. Kannski er ég bara svona fjandi tregur, afsakið orðbragðið, herra forseti, en ég fæ ekki séð hvernig þetta á að auka öryggi sjómanna. Jú, þeir hafa tólf daga til að velja. En hvað gerist ef það er nú bræla fyrstu fimm dagana og svo kemur þokkalegt veður og bræla aftur seinni hluta mánaðarins? Þá auðvitað sækja menn. Menn munu alltaf sækja, menn munu alltaf fara á sjóinn til að ná í sinn skammt. Það breytir engu hvort dagarnir eru tólf eða fleiri og það eru yfirleitt bara 30 dagar í mánuði.

Ég held að málið hefði þurft miklu betri og vandaðri vinnu en það hefur fengið þó svo að ég geri mér grein fyrir að nefndin hafi lagt þó nokkurn tíma í málið.

Ég held líka að nefndarmenn, þar á meðal fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, hafi gert hvað þeir gátu til að gera þetta mál þokkalegt. Það gerir að verkum að við erum ekki á rauða takkanum, segjum ekki nei við málinu, því að það er skítsæmilegt. (Gripið fram í: Hann skrifaði upp á álitið.) Það kann vel að vera, hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að hann hafi skrifað upp á álitið og það gerir þá ráðherra Sjálfstæðisflokks væntanlega líka með því að mótmæla engu hér. En við erum hins vegar alveg sammála um það í Miðflokknum að við ætlum ekki að stoppa þetta málið. Ástæðan fyrir því er sú að það er komin inn í þetta þokkaleg girðing um að ekki sé verið að opna nýtt dagakerfi. Ég held reyndar að það sé blauti draumurinn á bak við málið hjá formanni nefndarinnar, að búa til nýtt sóknardagakerfi til hliðar við öll hin kerfin. Ég held að þar liggi hundurinn grafinn. Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá.

Virðulegi forseti. Mál þetta sem hér kemur inn og á að endurskoða að ári, sem er verið að klára núna í einhverju krampakasti rétt áður en menn eiga að fara að byrja að veiða, ber vott um að það hafi verið kannski ekki átök heldur mjög skiptar skoðanir um hvernig málið ætti að líta út. Það er núna sem helstu forsvarsmenn málsins eru í einhverjum björgunarleiðangri að reyna að lappa upp á það með því að breyta ufsaákvæðinu og með því að reyna að breyta þessu þannig að þeir sem voru með heimilisfesti á ákveðnu svæði 23. apríl 2018 þurfi að vera þar áfram eða veiða út frá því. Það er reyndar miðað við tvö ár af þremur o.s.frv. eins og kemur fram í breytingartillögunni. Það er verið að lappa upp á þetta fram á síðustu mínútu. Málið er ekki nógu vel úr garði gert, það er mín skoðun.

Þegar mælt var fyrir frumvarpi um strandveiðarnar á sínum tíma hér í þingsal var dregin upp sú mynd að við værum að búa til eitthvert rómantískt kerfi þar sem maður sá í anda, miðað við lýsingarorðin sem hér voru notuð, gamlan kall á trillu sem varla hreyfðist fara út á hafið að ná sér í soðið. Þannig var myndin sem var teiknuð upp. Kerfið í dag er hins vegar einhvern veginn orðið þrískipt. Það er ákveðin rómantík í því. Það er líka fullt af atvinnumönnum í kerfinu. Þetta hefur skapað fólki atvinnu. Bara jákvætt. En svo eru allir hobbýkarlarnir. Allir flugstjórarnir og endurskoðendurnir og pólitíkusarnir sem eiga einhvers staðar litlar trillur og sækja í sama fiskinn og menn eru að reyna að hafa atvinnu af. Þetta er strandveiðikerfið í dag.

Fyrir mér er þetta galið kerfi eins og það er. Í þann stutta tíma sem ég var sjávarútvegsráðherra hafði ég mikinn áhuga á að koma hobbýkörlunum út úr þessu. Gera þetta bara að atvinnukerfi. Ef það er það sem menn vilja. En kerfið eins og það er í dag, heildarapparatið í kringum þetta, er ekki alveg nógu gott.

Ég ætla ekki að fara í gegnum mál þetta allt í heild. Ég er búinn að segja hvernig við í Miðflokknum ætlum að greiða atkvæði. Það er að sjálfsögðu ákvörðun tekin í samráði við okkar mann í nefndinni, svo það sé nú sagt. En mér finnst þetta dæmi um hvernig menn eru ekki að efla þingið, þetta er dæmi um hvernig menn eru að veikja þingið. Þetta eru akkúrat þau vinnubrögð sem við eigum ekki að viðhafa á Alþingi.