148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans innlegg í umræðuna. Ég er ein af þeim sem styð þetta nýja frumvarp. Hv. þingmaður segir að við séum alls ekki að efla þingið en ég verð að segja að ég er ekki sammála því. Þó svo að við þyrftum að vera í samræðu, sem hlýtur að vera eðlilegt, þegar mál gengur á milli umræðna og kemur að lokum hingað til atkvæðagreiðslu, erum við sammála um að standa saman. Ég veit nú ekki alveg hvort það eru sjö flokkar í nefndinni eða hvort við erum sex; alla vega erum við ekki að taka þetta á flokkslínur heldur á þessari hugsjón. Hv. þingmaður talar eins og hann ætli að kjósa á móti þessu; að kjósa á móti því að við séum að auka aflahlutdeild í þorski, tvöfalda aflann í ufsa til að reyna að koma til móts við sjómennina okkar. Hann vill þá bara hafa það eins og það var, það er þá bara nokkuð ljóst.

Það sem við erum að tala um núna er að það eru fjórir mánuðir í sumar. Við höfum verið að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná sameiginlegri lendingu á það að jafnt verði sótt í þessi fjögur svæði, að ekki verði neitt kapphlaup á milli svæðanna. Við bíðum meira að segja spennt eftir því að sjá hver verður niðurstaðan eftir sumarið. Ég óska bara öllum okkar trillukörlum og smábátakörlum gleðilegrar veiði í sumar og hlakka rosalega til að sjá hvort þeir komi ekki glaðir undan þessu frábæra sumri. Kannski maður fái að skreppa á sjó með einhverjum þeirra og veiða til dæmis ufsa.