148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú hefur þetta mál verið í töluverðri þróun og töluverður hamagangur í því. Þetta er ekki uppáhaldsniðurstaða nokkurs manns. Það hefðu allir viljað sjá aðeins öðruvísi niðurstöðu. Ég held að það eigi við um alveg alla. Að því marki sem ég kom að því hefur ferlið einkennst af skyndilegum hamagangsbreytingartillögum sem meðal annars komu inn í morgun án þess að neitt hefði verið rætt um það áður. Það eru svolítið þvingaðar niðurstöður, skortur á gögnum og rökleysur, fullyrðingar sem hafa verið út í hött. Þetta hefur stungið mig svolítið. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög óþægilegt að vinna í umhverfi þar sem skortur er á góðum upplýsingum og þar sem verið er að vinna hluti of hratt.

Síðan er náttúrlega afskaplega óþægilegt — fólk er þó að reyna eins og það getur að komast til sáttar — þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson mætir skyndilega og reynir að slá sig til riddara með því að lýsa forundran sinni á öllu ferlinu. Það hefur vissulega ekki verið fullkomið, en þó höfum við verið að færast í rétta átt. Við megum eiga það í atvinnuveganefnd að málið hefur mjakast í rétta átt. Og þetta er mikilvæg og góð tilraun, en það eru enn þá gallar. Það eru möguleikar á því að þeir gallar raungerist en þeir eru ekki miklir. Ég trúi því að niðurstaðan verði góð, sérstaklega með þeim breytingum sem náðust í gegn núna. Ef það bregst þá vitum við betur og gerum betur næst. Ég vona svo sannarlega að þetta raungerist ekki.

Það eru nefnilega ýmsir afskaplega hræddir við þessar breytingar. Það er eðlilegt, þegar fólk hefur bókstaflega áhyggjur af afkomu sinni, að ákveðin hræðsla sé til staðar. Vonin er auðvitað sú að þetta bæti ekki bara hag flestra heldur helst allra. Markmið mitt undanfarna daga — ég hef verið allt að því leiðinlegur við kollega mína stundum — hefur verið að reyna að fækka þeim sem þurfa að hafa áhyggjur. Ég held að þeir séu afskaplega fáir sem þurfa að hafa áhyggjur af þessu á þessu augnabliki. Þótt við höfum náð langt er ég ekki fullkomlega sannfærður, en ég er næstum því sannfærður. Það er kannski það besta sem við getum átt von á.

Ég hefði, rétt eins og hv. þm. Inga Sæland, viljað að þetta ufsahlutfall hefði endað í 100%, enda spurning um örfáar krónur fyrir ríkissjóð til eða frá. Munurinn fyrir ríkissjóð er svo til enginn. Munurinn fyrir strandveiðisjómenn er afskaplega mikill í einhverjum tilfellum. Enn sem komið er hef ég ekki heyrt nein einustu rök fyrir því af hverju þetta má ekki vera 100%. Ég hef ekki heyrt nein rök samt hef ég kallað ítrekað eftir þeim í nefndinni. Það er kannski ákveðið vandamál. Þó hef ég heyrt afskaplega góð rök frá einmitt hv. þm. Ingu Sæland um það hvers vegna þetta ætti að vera í 100%, það er einmitt til þess að draga úr líkum á brottkasti. Þannig að rökin fyrir því að færa þetta í 100% eru til staðar. Það hafa engin rök komið fyrir því að þetta megi ekki fara í 100%.

Gott og vel. Þetta er engu að síður niðurstaðan sem kom úr nefndinni og er það ástæðan fyrir því að ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þess að ég held að við hefðum getað gert töluvert betur.

Þrátt fyrir þetta allt er alltaf hægt að kvarta. Ég kvarta kannski mikið núna vegna þess að það var mjög mikið persónulegt mál fyrir mig að reyna að ná sem allra lengst. En það er betra að gera þetta en ekki með tilheyrandi 15% aukningu á fiskveiðiheimildum, með billegum reglum um ufsann, sem ætti að gera það að verkum að ágætispeningur næst inn fyrir ufsann; ufsinn telst ekki með í aðalaflann, þar af leiðandi ætti fólk að geta fengið töluvert verðmætari fisk inn í þá hlutdeild. Svo eru ýmsar aðrar breytingar sem eru gerðar. Þetta er betra en að standa í stað.

Það hefur verið hluti af stefnu Pírata frá upphafi að reyna að gera allt til þess að efla strandveiðar. Ég veit að aðrir flokkar hafa haft svipaðan áhuga. Hluti af því er að þróa þetta í rétta átt. Ég vil gjarnan að við förum í framtíðinni, og kannski strax í haust, að skoða möguleika á auknu frjálsræði og færri reglum, enda eru reglurnar svo margar hvað varðar strandveiðar að mætti skrifa um það töluvert langa bók. En með því að færast í átt að auknu frjálsræði gæti hugsanlega skapast minni ótti um breytingar í framtíðinni.

Ég ætla ekki að lengja þetta neitt frekar, en vonin er að sjálfsögðu þessi: Þetta á að skila góðum árangri fyrir fólk. Í framtíðinni, þegar við höldum áfram frekari breytingum, þegar við reynum að vinna þessa hluti áfram, þegar við reynum að vera ekki í þessum hamagangi — tökum okkur aðeins meiri tíma, horfum betur á gögnin, vinnum meira í sátt — verða kannski færri upphlaup alveg í blálokin.