148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:17]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þetta er sérstakt mál. Ekki er hægt að nálgast það á annan hátt en þann að það sé nokkuð sérstakt. Það er sérstakt hvað varðar vinnubrögð og framlagningu — þetta er ekki stjórnarfrumvarp — og síðan erum við að ræða breytingar á kerfi sem var umdeilt á sínum tíma, þegar því var komið á. Síðan hefur það náð að þroskast og það er ljóst að við búum við kerfið eins og það er.

Ég hef haldið sjónarmiðum mínum til haga. Ég vil geta þess að ég er sammála þessum breytingum og mun fara yfir þær á eftir. Ég vil halda því til haga að ég ræddi það sérstaklega að ég hefði frekar kosið — hafði þá skoðun á sínum tíma og hef ekki breytt þeirri skoðun minni — að hafa kerfið einfalt. Ég vildi helst hafa eitt kerfi sem allir myndu búa við og fara eftir sömu reglum. Það er ekki svo. Við erum a.m.k. með tvískipt kerfi. Við erum með stóra kerfið og við erum með strandveiðarnar. Við erum síðan með viðbótarlinka eða lykkjur sem tengjast byggðakvótanum. Við erum með almenna byggðakvótann sem ekki hefur gengið neitt sérstaklega vel að útfæra. Það liggja fyrir tillögur í ráðuneytinu frá síðasta ári í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. Síðan er sértæki byggðakvótinn sem hefur reyndar tekist ágætlega að þróa. En það hefur þurft þróun. Þetta eru allt dæmi um það að við erum með ákveðna kima, ákveðnar aukaleiðir, í kringum fiskveiðistjórnarkerfið sem mér finnst ekkert endilega til fyrirmyndar. Leiðarljósið okkar á alltaf að vera sjálfbærni, verðmætasköpun og við eigum að byggja veiðarnar á vísindalegum niðurstöðum og fara eftir þeim. En þetta er staðan eins og hún er í dag.

Á sínum tíma voru strandveiðarnar samþykktar. Það er komin ágætisreynsla á það kerfi. Það hefur komið gagnrýni líka. Ég vona að vilji löggjafans verði skýr. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, sem ræddi málið hér á undan, að ég er alfarið á móti því að við förum að breyta kerfinu okkar á þann veg að það færist úr því að vera dagakerfi yfir í sóknardagakerfi. Ég ætla ekki að fara aftur niður á kæja, eins og gerðist oft á síðasta ári, og hitta menn sem ekki voru einungis búnir að selja sig einu sinni út úr kerfinu heldur tvisvar og þrisvar. Ég held að enginn hér inni vilji fara þá leið. En hvað þá með þessar breytingar? Eru þær þess virði að fara lengra með strandveiðikerfið? Já, meðan við búum við strandveiðikerfið þá verðum við að reyna að þróa það.

Það er verið að koma til móts við sjónarmið sem ég held að þingmenn geti ekki komist hjá að hlusta á og það eru meðal annars öryggissjónarmiðin. Stærsta og mikilvægasta markmið þessa máls er öryggismál sjómanna, að það verði ekki hvati fyrir sjómenn að fara út í alls konar veðri vegna þess að kerfið býður ekki upp á annað. Það býður hættunni heim. Þarna eru löggjafinn og nefndin að reyna að ná til þessa hóps.

Það er verið að koma til móts við þá gagnrýni sem kom strax, og ég held hún hafi verið réttmæt, og það var óttinn við að menn færu á milli svæða; að menn ætluðu að fara að víla og díla. Það er það sem má ekki gerast, að menn fari að haga sér þannig, og nefndin reynir að koma til móts við það og er að reyna að loka á milli hólfa þannig að hvert svæði verði fyrir sig. Það hefur verið komið til móts við þær gagnrýnisraddir.

Verðmætasköpun og verðmætin frá strandveiðum — til að byrja með var reynslan sú að þetta var ekkert endilega besta afurðin; ekki endilega besta umhirðan og umgengnin við aflann. Hins vegar hefur kerfið lært að móta og þróa betri umhirðu þannig að aflinn er að verða betri, verðmætin eru að aukast. Það er það sem skiptir þjóðarbúið mestu máli, að við fáum sem flestar krónur fyrir hvert kíló sem dregið er á land. Sú þróun er jákvæð og við megum ekki missa sjónar á kröfunni um verðmætasköpun í sjávarútvegi sem hefur reyndar gengið stórkostlega vel á umliðnum árum, m.a. út af því að við erum með skýrar reglur.

Hv. þm. Smári McCarthy sagði: Þetta er ekki uppáhaldsniðurstaða neinna hér í dag. Nei, en það má heldur ekki vera svo að við séum að gera þetta bara til þess að gera eitthvað. Niðurstaðan verður að vera skárri en það kerfi sem er í strandveiðunum í dag. Er það það? Ég tel svo vera. Ég tel þau skref vera stigin. Ég er ekkert endilega glöð með það kerfi sem er hér, en þetta er samt skárra en núgildandi kerfi. Þar hefur formaður atvinnuveganefndar lagt sig fram.

Það er rétt að geta þess — nú heyrum við að skoðanir eru skiptar innan Miðflokksins — að skoðanir eru skiptar innan Viðreisnar um það hvort við eigum yfir höfuð að vera á þessu máli út af ýmsum sjónarmiðum, m.a. þeim sem ég hef rakið hér. Við viljum einfaldleika. Við viljum fyrst og fremst, það er stóra málið hjá okkur, að á endanum verði greitt sanngjarnt gjald fyrir aðganginn að auðlindinni. Þetta litla mál, stórt mál í augum sumra, er samt vísbending um að við þingmenn úr ólíkum flokkum, með ólíkar skoðanir innan flokkanna, getum komist að niðurstöðu í málum sem tengjast sjávarútvegi. Ef við leggjum okkur fram getum við náð niðurstöðu. Kannski er það Pollýannan í mér sem grípur í þetta haldreipi: Jú, þetta þing og þetta kjörtímabil getur farið í það að við náum sáttinni sem er svo mikilvæg fyrir stóra kerfið. Ef raunveruleg sátt á að verða um aðganginn að fiskimiðum þjóðarinnar getum við sagt: Þingið getur, ef það leggur sig fram, sætt ákveðin sjónarmið, ekki fullkomlega en þó nálgast þau markmið sem við þurfum að hafa. Hér voru markmiðin öryggismál sjómanna. Í stóra kerfinu verða það að vera hagsmunir þjóðarinnar. Þar eigum við að sameinast um það markmið og þá vinnu.

Mér finnst miður að finna það í dag að það er ekkert sem kemur frá ríkisstjórninni, ekkert sem kemur frá ríkisstjórnarflokkunum, ekki ein vísbending um það hvernig vinna eigi að sátt um auðlindina í sjónum. Nú hefur ríkisstjórnin verið að störfum í nokkra mánuði. Þverpólitísk nefnd var sett á laggirnar til að reyna að ná því markmiði, reyna að ná sátt um aðgang að auðlindinni okkar allra. En enn heyrist ekkert frá ríkisstjórninni hvað þetta mál varðar. Ég vil hvetja hana til að nota sumarið og leggja fram tillögur um hvernig hún ætlar að nálgast það stóra mál. Ef það verður ekki gert þá mun að endingu verða mun meiri óeining um það stóra kerfi sem við byggjum afkomu okkar á í sjávarútvegi en nú er. Stóra kerfið er í grunninn gott, ég hef margítrekað það. En það vantar þessa sátt, það vantar ákvörðun um sanngjarnt gjald, skýrt gjald, fyrir auðlind þjóðarinnar.

Ég er merkilegt nokk oft sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni — stundum svo að mér verður um og ó. (Gripið fram í.) Já, ég heyri það, ég mun verða alveg róleg. Ég er sammála honum um að það kerfi sem við ræðum hér, strandveiðikerfið, er ekki endilega það besta og ákjósanlegasta, en við búum við það; og ég tek undir ákveðna gagnrýni sem kom þar fram. Hitt er síðan að hann talaði um vinnubrögð þingsins en þar er ég honum ósammála. Ég tók þátt í starfi nefndarinnar og ég sá hvernig formaður hennar reyndi að ná fram ólíkum sjónarmiðum, reyndi að tala inn í ólík sjónarmið, hún lagði sig fram í þá veru. Ég átti samtal við hana á síðasta ári þegar ég var sjávarútvegsráðherra og þekki þetta vel. Skoðanir eru mjög skiptar innan Sjálfstæðisflokksins — ég veit að það eru margar kraumandi óánægjuraddir þar — en það voru líka margir sem komu til mín, m.a. með hv. þingmanni á sínum tíma, og reyndu að segja: Hvernig getum við komið til móts við öryggismál sjómanna í tengslum við strandveiðarnar? Getum við náð samkomulagi til þess að mæta þessu skiljanlega sjónarmiði varðandi öryggismál sjómanna á strandveiðum? Það var ekki hægt. Nú hefur hv. þingmaður tekið boltann áfram og er það vel. Ég vil styðja hana í því þó að hún viti vel, þó að fólk viti vel, að ég er ekki endilega bullandi hoppandi glöð með allt í þessu.

Á grunni þeirra gagna sem liggja fyrir, á grunni þess lagaumhverfis sem við búum þegar við, og þarf að breyta, tel ég rétt að stíga þessi skref. Það hefur verið komið til móts við þann ótta að það væri verið að flakka á milli svæða, það er ekki verið að gera það. Það er líka verið að fara í ákveðna tilraun varðandi ufsann sem mér finnst áhugavert; að sjá hvort við mælum minna brottkast með því að auka heimildir til sjómanna til að koma honum á land, þeir fá 80%, 20% fara til Hafró í gegnum sjóð. Það finnst mér áhugavert.

Það sem skiptir máli er að við setjum tímaramma. Við setjum tímaramma sem er ákveðin svipa á okkur, svipa á Fiskistofu, svipa á ráðuneytið og Hafró, til að gera úttektina sem við munum væntanlega fá 1. desember, síðar á þessu ári, til að skoða þá algjörlega hlutlaust, öll sem hér erum, hvernig við getum gert kerfið betra. Þá koma spurningarnar. Voru þessar breytingar að virka? Þá verðum við líka að horfast í augu við það ef farið hefur verið á svig við kerfið. Strandveiðimenn verða líka að axla þá ábyrgð að fara ekki að leika sér að kerfinu. Það mun kalla á ólgu, líka hér innan þings. Ábyrgð okkar allra í þessu er mikil.

Ég vil að við áttum okkur á því að þegar Fiskistofa og stjórnvöld munu kynna þessa tilraun, sem við erum að fara út í — þetta er tilraun til þess að reyna að athuga hvort þingið geti gert betur — þá verðum við líka að vera tilbúin í að fara í aðra umræðu um það hvort annað kerfi sé kannski betra og henti betur en það fyrirkomulag sem við erum að setja á hér í dag.

Þannig að það er tímarammi, það er svipa, það hefur verið hlustað á gagnrýni og það hefur verið unnið vel. Það vil ég þakka og beini þeim þökkum sérstaklega til formanns nefndarinnar, um leið og ég skil ákveðnar ábendingar sem hafa verið settar fram í þessu máli. En þetta er áhugavert.