148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa furðað sig á þeim vinnubrögðum sem við höfum horft upp á varðandi þetta frumvarp. Því er varpað inn í nefndina og kemur svo jafnharðan þaðan út aftur með einhvers konar breytingum og aftur inn og út með lagfæringum. Það er þó ekki svo illt að ekki sé eitthvað gott í því. Ég fagna auðvitað breytingum varðandi ufsann, það var mikið búið að tala um það í ræðustólnum að það gengi náttúrlega ekki að sjómenn fiskuðu ufsa fyrir ríkið í raun og veru og fengju varla fyrir kostnaði. Það er búið að laga það verulega, upp í 80%, og ég fagna því.

Vissulega fagna ég ýmsu öðru í þessu frumvarpi, t.d. ef á að auka strandveiðikvótann, hvort sem aukningin fer upp í 10.200 tonn eða yfir 11.000. Það er þá aukning um 1.000 eða 2.000 tonn eftir atvikum.

Ég myndi vilja ræða örlítið strandveiðikvótann almennt vegna ummæla einstakra þingmanna um það hversu mikill þessi kvóti er orðinn. Þegar þeir býsnast yfir því vil ég bara benda á nokkrar tölur sem ég hef um hann. Strandveiðikvótinn var 2011 tæp 4,2% af heildarþorskafla landsmanna, fór svo niður fyrir 4% og hefur æ síðan, öll þessi ár, þessi sjö ár, verið undir 4% og var á síðasta ári kominn í 3,6–3,8%. Miðað við að kvótinn hefði alltaf verið 4,2% á þessu sjö ára tímabili er búið að minnka kvóta strandveiðiflotans um rúm 9.000 tonn, raunverulega eitt fiskveiðiár í strandveiðinni. Það að býsnast yfir því að það sé verið að auka kvóta strandveiðiflotans finnst mér heldur djúpt árinni tekið, þvert á móti er gott að það sé verið að gefa í núna og mætti sannarlega gefa betur í. Við erum sammála um það.

Ég er líka ánægður ef það á að auka öryggi sjómanna eins og lagt er til í þessu frumvarpi, þ.e. hafa fleiri daga í mánuði, 12 daga í mánuði. En ekki er allt sem sýnist, ef sókn flotans er skoðuð sést greinilega að sóknin hefur verið meiri en 12 dagar nema á svæði A vegna þess að þar hefur kvótinn verið kláraður á skemmri tíma. Hin svæðin hafa þurft að hafa meira fyrir því. Ég er hérna með svar frá sjávarútvegsráðherra við spurningu Bjarna Jónssonar fyrr í vetur um þetta atriði og þar kemur fram að á svæðum B, C og D voru sóknardagar strandveiðiflotans 16, 17 og 18 dagar alla mánuði síðasta sumar. Þarna er verið að fækka sóknardögum um fjóra til sex.

Svæði A sker sig reyndar úr vegna þess að sóknardagar þar í fyrra voru átta í ágúst, átta í júlí og tíu í júní. Á því svæði er því verið að fjölga sóknardögum. Ég fagna því ef strandveiðimenn geta haft fleiri daga til að sækja sjóinn, en ég fagna því ekki ef á að minnka kvótann á öðrum svæðum á kostnað eins.

Áætlaðar veiðar í sumar eru athyglisverðar og ýmislegt kemur þar líka í ljós. Ég er hér með töflu, fylgiskjal með frumvarpinu, um áætlaðar veiðar strandveiðiflotans miðað við 48 daga, þ.e. 12 daga í mánuði í fjóra mánuði, og þá kemur í ljós miðað við óbreyttan bátafjölda frá því í fyrra að sóknin í sumar komandi yrði 5.000 tonn á svæði A, tæp 2.000 á svæðum B og C og tæp 1.200 tonn á svæði D. Hvað þýðir þetta borið saman við tölur frá því í fyrra? Það þýðir að veiðin á svæði D minnkar um 330 tonn. Á svæði C minnkar veiðin um 360 tonn. Á svæði B minnkar veiðin um 240 tonn. Á svæði A eykst veiðin um tæp 1.400 tonn, hún er komin í næstum 50% af strandveiðikvótanum. Á komandi sumri ef þetta gengur eftir — þetta eru áætlanir — verður hún um 50% en var með þriðjung í fyrra. Auðvitað fagna ég því að menn geta veitt meira, en ég vil ekki að það komi niður á einhverjum öðrum. Það verða færri dagar á D-svæðinu, hv. þingmaður, færri dagar en í fyrra. Það eru 12 í mánuði, það voru 18 í fyrra. Ég er auðvitað óánægður með þetta. Ég er óánægður með það ef markmið frumvarpsins er að færa 50% af veiðinni á svæði A á kostnað hinna svæðanna.

Á síðustu metrunum kemur breyting um að loka skráningu á milli svæða. Á að fagna því? Eða eru þetta einhverjar hömlur? Menn vilja kannski bjarga sér og fara þangað sem veiðist mest, menn fylla bátinn mjög hratt, gæftir eru bestar og veðrið kannski skást inni á einhverjum fjörðum, en þá er lokað á að þeir komist þangað til að bjarga sér. Það eru bæði kostir og gallar við það. Auðvitað má koma í veg fyrir að menn stökkvi á milli svæða og geri út langt frá heimilum sínum, ég skil það.

Ég spyr um heildarkvótann. Hvert er öryggi þess að heildarkvótinn verði aukinn? Ráðherra er ekki hér í salnum. Ég sakna þess, ég held að hann gæti svarað þessu best allra. Ég tek undir með hv. þingmanni Gunnari Braga Sveinssyni um það að ráðherra hefur ekkert komið upp í þessu máli mér vitandi. Það væri fróðlegt að heyra hvað hann segir um þennan kvóta og hvenær hann ætlar að loka kerfinu ef kvótinn er búinn eins og ég hef talað kannski mest fyrir. Ef kvótinn klárast í júlí, verður þá aukið við hann? Hversu mikið? Hvað er öruggt í hendi? Verður lokað í lok júlí eða verður framlengt? Verður einstökum svæðum lokað sem ég tel skást til að koma í veg fyrir að sumir nái ekki að veiða upp í kostnað?

Það er mikið talað um brothættar byggðir, herra forseti, sem leiðir hugann að því að hvernig sem þetta fer allt saman þurfum við líka að hugsa til þess hvaða áhrif þetta hefur á byggðirnar. Það er verðugt rannsóknarefni að mínu mati hvaða áhrif strandveiðarnar hafa haft síðustu tíu ár á byggðir í landinu, sérstaklega minni byggðir og brothættar byggðir. Hefur það verið rannsakað í þaula? Eru þetta heimamenn sem eru að veiða frá sínum heimilum eða eru þetta einhvers konar farandmenn, einhverjir ævintýramenn úr þéttbýlinu sem færa sig tímabundið út á land og hafa kannski minnst áhrif á þessar byggðir til langframa? Hefur það verið rannsakað? Ég tel að það sé verðugt rannsóknarefni að komast að því hver raunveruleg áhrif strandveiðanna eru. Ég veit til þess að þau hafa mörg jákvæð áhrif og ætla alls ekki að draga úr því, en hver eru langtímaáhrif á mjög smá byggðarlög? Það væri gaman að fá svör við því.

Varðandi veiðarnar sjálfar, ólympískar veiðar eða ekki, tel ég, herra forseti, með fullri virðingu fyrir mörgum góðum hlutum í þessu frumvarpi það vera þannig úr garði gert, af því að þetta er sóknarkerfi, að það er hætt við því, sérstaklega þegar líður fram á sumarið og styttist í annan endann á aflaheimildum, að þetta breytist í það sem ekkert okkar vill, í einhvers konar ólympískar veiðar, menn hraði sér á miðin til að ná í síðustu dagana og síðustu þorskana. Þó að ég fagni frumvarpinu í heild sinni sé ég ýmsa agnúa á því, eins og ég hef nefnt hér. Ég er búinn að nefna þá flesta og get þeirra vegna ekki stutt frumvarpið þrátt fyrir ýmsa kosti þess.