148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég mátti til með að hlaupa niður og ná í smágögn til að fullvissa mig um að ég hefði rétt fyrir mér áður en ég leiðrétti hv. þingmann þannig að ég er pínu móður. Hv. þingmaður talaði um að helmingur aflans myndi veiðast á svæði A en nú höfum við rauntölur frá t.d. 2017 og reyndar fleiri árum hér, alveg aftur til þess tíma þegar strandveiðikerfið var tekið upp, og það er vissulega rétt að fleiri tonn safnast á svæði A, 3.699 tonn í fyrra af þeim 9.800 tonnum sem var gert ráð fyrir. Það hljómar kannski eins og fullstór biti, en ef maður skoðar betur eru það u.þ.b. 37% af heildaraflanum. Ef maður skoðar síðan fjölda báta á svæði A er um að ræða nákvæmlega 37% af heildarbátaflotanum. Það er kannski alveg fullkomlega eðlilegt að dreifingin sé með þessum hætti.

Það er ekki hægt að horfa á magn per svæði ef horft er fram hjá fjölda báta per svæði. Það er hreinlega þannig að á árinu 2017 voru bátar 227 á svæði A, 135 á svæði B, 126 á svæði C og 106 á svæði D. Þeim hefur fækkað á milli ára, það hefur orðið fækkun i þessu kerfi. Ég vona að það snúist aðeins við og verði eins og þetta var t.d. 2012 þegar við vorum með 759 báta í þessu kerfi, en það er rosalega mikilvægt að við séum ekki að rugla umræðuna með því að láta eins og þetta sé einhvers konar fyrirheitna landið á Vestfjörðum á svæði A. Þar er vissulega mjög góð veiði, en til svæðis D var úthlutað út af öðrum (Forseti hringir.) þáttum. Ég held að það sé búið að taka mikið til á þeim vegna ufsareglunnar.