148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:54]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að leggja orð í belg. Markmið þessa máls er að tryggja öryggi sjómanna eða bæta öryggi sjómanna. Ég fæ ekki séð að þessar breytingar, sem er verið að leggja á borð hér, þjóni því hlutverki. Öryggi sjómanna verður varla tryggt með því að breyta fjölda sóknardaga. Eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason hefur bent á þá er á einhverjum svæðum verið að fækka þeim raunverulega miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum.

Ef okkur er það í mun að auka öryggi sjómanna væri nær að frumvarpinu fylgdu einhvers konar leiðbeiningar eða reglur um það hvenær megi sækja sjóinn, t.d. í formi veðurlágmarka; hvaða bátar, hvaða stærðir eða hvaða útbúnað þeir hafa til þess að sækja í ákveðnum veðrum.

Vinnubrögðin sem minnst var á hér, að þau væru til þess að, hvernig var það orðað, að bæta vinnubrögð þingsins — ég sé ekki að þetta þjóni því heldur. Umræðan sem hér hefur farið fram virðist miða að því að reyna að ná úrskurði um hver má veiða hvað mikið á hvaða svæði og hvenær og stefnir meira í þá átt að ýtt verði undir svokallaðar ólympískar veiðar.

Ég tek undir með flokksbróður mínum, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, að vinnubrögðin eru ekki til þess fallin að efla þingið. Við þingmenn eigum að vanda til verks og við eigum að klára svona mál að fullu og vera ekki að láta ýta okkur út í svonalagað í tímapressu.