148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við 2. umr. málsins kallaði ég eftir breytingum sem mættu verða til þess að slá á þann óróa, þann ágreining og þá óvissu sem þær breytingar sem hér eru boðaðar hafa í för með sér. Óvissan er mikil, ekki síst fyrir brothættar byggðir, þær veikustu sem þurfa kannski mest á þessu kerfi að halda. Það kristallast ágætlega í þeirri umræðu sem fór hér fram við 3. umr. málsins hversu mikil óvissan er og hversu miklar efasemdir menn hafa. Jafnvel menn sem styðja þetta mál ganga að því með opnum augum að þessi óvissa sé til staðar eins og fram kom í ræðu hv. þm. Smára McCarthys. Hann sagði: Allir hefðu viljað sjá málið öðruvísi. Möguleiki er á að gallar raungerist. Ég vona að svo verði ekki.

Málið er fullt af „ef“ og „kannski“. Það er ekki boðlegt, virðulegur forseti, að boða slíkar breytingar í þessu máli með svo stuttum fyrirvara, allra síst við þær aðstæður þar sem verið er að auka umtalsvert á þær aflaheimildir sem eru til ráðstöfunar. Þær hafa aldrei (Forseti hringir.) verið meiri. Það hefði verið hægt að skapa hér í landinu og á þingi mjög víðtæka sátt um breytingar sem hefðu komið öllum til góða.