148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[15:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um strandveiðifrumvarpið sem er stórt mál í hugum margra sem byggja sjávarbyggðir vítt og breitt um landið. Ég hef fylgst með strandveiðum allt frá upphafi og séð hvernig þær hafa haft jákvæð áhrif á sjávarbyggðirnar. Ég hef verið óttaslegin allt frá upphafi út af hvata í kerfinu til ólympískra veiða. Það hafa orðið slys og það sem hefur rekið mig áfram í að gera tilraun til að fá þingmenn þvert á flokka með mér í þetta verkefni er fyrst og fremst öryggismál sjómanna.

Sveigjanleikinn og annað sem hefur komið fram að þurfi að vera í greininni til að við getum þróað kerfið áfram, tekið stöðuna í haust, metið reynsluna og búið til gott kerfi til frambúðar skiptir miklu máli. Reynslan sem við fáum af sumrinu hjálpar okkur að taka ákvörðun um að greiða hér atkvæði. Ég vona að þingheimur sammælist þvert á flokka um að styðja þetta góða mál. Gleðilegt sumar, (Forseti hringir.) strandveiðisjómenn.