148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[15:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að ljúka umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta er lítil breyting í stóra samhenginu, en hvert örstutt spor til að hreyfa við óbreyttu kerfi er gæfuspor fyrir almenning. Ítrekað hefur komið fram að Samfylkingin talar fyrir miklu róttækari, almennari og sanngjarnari breytingum í þessu lagaumhverfi. Við munum halda þeirri umræðu áfram. Sanngirni og réttlæti eru víðs fjarri í því kerfi sem við búum við.

Virðulegur forseti. Strandveiðar hafa reynst mikilvægur þáttur í því að koma til móts við sjónarmið þeirra sem telja að þörf sé á breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í þá veru að tryggja almenningi ríkari hlutdeild í veiðunum og þar með í arði af sameiginlegri auðlind. Strandveiðarnar hafa hleypt lífi í sjávarbyggðir allt í kringum landið og það er gott og gleðilegt. Þessi stutta og litla breyting mun stuðla að grósku og gleði í sumar um landsbyggðina og við munum síðan taka málið út og meta fengna reynslu í haust.