148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi nýtt þing og nýja þingmenn þarf ég að ítreka þetta aðeins. Það að undirrita siðareglur þó að þær séu alveg óbreyttar er einmitt ekki nóg. Það er ekki nóg bara að kynna sér þær. Það kom fram í umræðum sem við áttum fyrr á þessu þingi að innleiðingarferli á siðareglum knýr á um þátttöku. Þó að siðareglurnar liggi fyrir þegar nýir þingmenn koma inn þurfa þeir að fara í gegnum lærdómsferlið alveg frá byrjun til að eiga hlut að máli. Það er ekki nóg að kvitta bara undir.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson notaði leitarforrit sitt til að leita í þinggögnum og fann mál frá forsætisnefnd þar sem allir þingforsetar og svo áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd rita undir. Það var sérstaklega tilgreint í greinargerð en forsætisnefnd flytur málið. En þetta eru bara formáherslur.

Varðandi það að bregðast við brotum nefnir hv. flutningsmaður að tilgreina þurfi meint brot er berist til forsætisnefndar. Einnig þarf að tilgreina brotaaðila, en bæði getur verið grunur um brot án þess að það sé nákvæmlega ljóst hvert brotið er eða hver olli því. Það getur verið beiðni um að forsætisnefnd rannsaki, af því að aðgengi að gögnum er þannig takmarkað að hvorki sé hægt að tilgreina nákvæmt brot né nákvæman brotaaðila. (Forseti hringir.) Ég held að það sé líka nokkuð sem þurfi að taka tillit til af því að dæmin sýna það.