148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að taka langan tíma í mitt innlegg um þetta mál. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju minni með þessa breytingartillögu eða viðbætur. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson varðandi framfylgd reglnanna, en þó á öðrum væng; ég er uppteknari af því hvernig við forðumst brotin en nákvæmlega hver viðurlögin eru. Siðareglur eru nákvæmlega það sem þær eru, siðareglur, og sem slíkar leiðbeinandi um hegðun. Ég ætla eiginlega bara að biðla til þingheims, sem er þá fyrsta þingið sem, ef þetta verður samþykkt, mun hafa þessar leiðbeinandi siðareglur til hliðsjónar, að vera samstiga í að skapa kúltúr sem gerir að verkum að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af eftirfylgninni vegna þess að við högum okkur á þann hátt sem verið er að mælast til með þessum reglum. Það er okkar að skapa fordæmi um að farið sé eftir þeim. Það er þannig sem við stöndum við ábyrgð okkar í því að vinna að almannahagsmunum. Það hefur umræðan síðustu vikur og mánuði svo sannarlega sýnt, þannig vinnum við að almannahagsmunum.