148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa mikilli ánægju með að þetta mál sé fram komið. Þetta er mikilvægt skref á þeirri vegferð sem við þurfum að halda áfram til að tryggja hér mannsæmandi vinnuaðstæður fyrir jafnt karla sem konur innan veggja Alþingis.

Mig langar aðeins að rifja upp síðasta ár. Ég held nefnilega að við Íslendingar séum nokkuð stoltir af því að hér hafi jafnrétti náð lengra en í mörgum ríkjum. Við vorum í byrjun síðasta árs eitt af þeim ríkjum þar sem hlutfall kvenna var hæst innan þings í öllum heiminum. Hér voru 48% þingmanna konur, en síðan settum við heimsmet á síðasta ári. Við vorum það ríki sem missti hlutfallslega flestar konur af öllum þeim sem kusu til þings árið 2017. Við misstum sex konur út af þingi, fórum úr því að vera 48% á móti 52% niður í það að hér voru aðeins 38% konur. Það er staðan sem mætti okkur eftir kosningar sl. haust og kallaði óháð öllu öðru á einhver viðbrögð innan þings. Þótt ekki hefði komið til #metoo-bylgjan hefðum við þurft að horfast í augu við aðstæður innan þings til að sjá til þess að þetta offramboð þingkarla innan Alþingis yrði ekki til þess að starfið í nefndum, starfið í hliðarsölum, það starf sem við þurfum að vinna saman, litaðist eitthvað af þessu skekkta kynjahlutfalli.

Það er vert að nefna í framhjáhlaupi að Alþjóðaþingmannasambandið sem heldur utan um þessa tölfræði er jafnframt búið að benda á að skýr tengsl séu á milli kynjahlutfalls innan þings og annarra margbreytileikaþátta. Við sjáum t.d. að síðasta haust misstum við líka báða þingmennina sem voru með innflytjendabakgrunn. Við erum núna aðeins með einn þingmann undir þrítugu. Þetta er reyndar sama hlutfall ungra þingmanna og að meðaltali á heimsvísu en það er nokkuð sem við eigum að reyna að gera betur í.

Stuttu eftir að kosningar áttu sér stað í haust kom ákall til stjórnmálanna frá konum sem hafa starfað í stjórnmálum um að þau brygðust við sögum af kynbundnu ofbeldi, áreitni og ýmiss konar vanvirðandi hegðun innan þings og annars staðar í stjórnmálunum. Við því er sjálfsagt að bregðast og í því skyni héldum við hér á þingi, eins og framsögumaður nefndi, rakarastofu þar sem við settumst öll saman og ræddum það hvernig mætti endurskoða vinnuaðstæður hér. Hluta af afrakstrinum má sjá í fyrirliggjandi siðareglum.

Síðan má ég til með að nefna þriðja atriðið sem fram kom í bréfi þingkarla til forsætisnefndar sem var hluti af viðbrögðunum hér í haust og það er að kortleggja og meta umfang vandans hér innan veggja. Það skiptir máli upp á að geta tryggt öllum það öryggi sem mikilvægt er á vinnustaðnum Alþingi.

En vegna þess að hér hefur verið nefnt mikilvægi þess að þingmenn séu vel upplýstir um siðareglur og þekki til þeirra langar mig að nefna viðtal við Vilhjálm Árnason sem ég sá um daginn í Silfrinu, ekki hv. þingmann heldur hv. heimspeking, þar sem hann var spurður út í starfskostnaðargreiðslur og umræðu sem var í gangi um þær í samfélaginu. Hann benti á rakarastofuna sem við höfðum þá nýhaldið sem gott dæmi um það hvernig eining eins og Alþingi á að innleiða siðareglur eða á að taka upp reglur sem gilda um fólkið sem á sjálft að starfa undir þeim. Þetta var mjög gagnlegur dagur, ekki bara vegna þess sem kom út úr honum heldur vegna þess að þetta er aðferðafræði sem ég held að þingið ætti að nota miklu oftar. Þegar kemur að því að endurskoða siðareglur dugar ekki alltaf að bæta inn tveimur greinum til að takast á við tiltekin vandamál eins og við erum að gera núna, heldur þyrfti reglulega að halda samræðufund eins og við gerðum með rakarastofunni þar sem við ræðum allar siðareglurnar og það hvernig við viljum haga störfum okkar inni á þingi svo vel sé, þar sem við ræðum álitamál um starfskostnaðargreiðslur eða hvað það er, allt sem gæti mögulega kastað rýrð á starfið innan veggja Alþingis, dregið úr trausti og tiltrú á þessari stofnun. Þetta eru hlutir sem er mjög frjótt að ræða á viðlíka hátt og við gerðum um þær breytingar á siðareglum sem við ræðum hér.

Mig langar að stinga því að forsætisnefnd að hún hafi bak við eyrað á næstu misserum, kannski á miðju kjörtímabili, kannski undir lok þess, hvort ekki væri óvitlaust að halda aðra rakarastofu þar sem við förum m.a. yfir það hvernig tekist hefur til við að innleiða siðareglur í kjölfar #metoo-byltingarinnar, en líka hvernig aðrir hlutar siðareglnanna virka, hvort við þurfum að bæta þær enn frekar.

Svo langar mig að taka undir það sem fyrri ræðumenn hafa nefnt í sínum ræðum. Nú erum við að svara ákalli um að taka upp reglur og bregðast við, en svo er það næsta skref, það að þora að bregðast við þegar upp koma mál sem stangast á við þessar nýju reglur okkar. Þar óska ég forsætisnefnd alls hins besta í að útfæra þá verkferla sem nauðsynlegir eru og hafa þann kjark sem þarf til að takast á við erfið mál í því flókna starfsumhverfi sem er á Alþingi.