148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta þings fyrir svörin. Það er einmitt þetta með viðurlögin sem er ansi flókið. Hvar sem siðareglur eru settar verður þetta alltaf að erfiðleikastiginu, þ.e. hvort sem um er að ræða kjörna fulltrúa eða ekki. Það er líka hversu langt á að ganga, hvar er þetta gráa svæði viðurlaga, hvað ef um er að ræða hreint lögbrot? Hver er það sem tilkynnir lögbrot? Og svo framvegis. Þetta er flókið. En engu að síður tel ég mjög mikilvægt að það sé skýrt ferli og það sé mögulega meira en opinber smánun á heimasíðu þingsins. Það kann þó að vera að það sé rangt hjá mér.

Það er mjög gott ef skortur á fundum siðanefndarinnar er vegna þess að það er allt í lagi. Við skulum vona að það sé svo, þetta sé bara gott starfsumhverfi. Ég tel svo vera. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað. En þessar fjölmörgu sögur sem bárust okkur á haustmánuðum, í #metoo-sögunum frá stjórnmálakonum, benda til þess að við séum nú kannski ekki með alveg allt á hreinu hvað varðar háttsemi hvert í annars garð. Þar hefur því miður hallað mjög á stjórnmálakonur sem hafa mátt sæta margvíslegu kynbundnu ofbeldi í gegnum tíðina.