148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að eftirlit eða eftirfylgni og eftir atvikum viðurlög eru einn af vandasömustu þáttum þessa máls. Að sjálfsögðu er fagnaðarefni ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rýnir aðeins í það eftir því sem hún hefur tíma til núna og getur gengið að þeim gögnum sem eru til frá því málið var undirbúið að þessu leyti.

Ég held að það sé einmitt á hinu gráa svæði — þar sem er brot eða meint brot á siðareglum, einhver óviðeigandi, óásættanleg hegðun eða framganga af einhverju tagi sem þó er ekki lögbrot, ekki refsivert eða saknæmt athæfi — þar sem menn eru í þeim vanda að útkljá hvernig viðurlög skuli vera. Það er almennt litið svo á að birting niðurstöðu sé talsverð viðurlög fyrir kjörinn fulltrúa. Ef niðurstaða málsins er afdráttarlaus og hann telst hafa brotið siðareglur, þá eru það þó nokkur viðurlög eða refsing í sjálfu sér fyrir kjörinn fulltrúa að sitja uppi með þann álitshnekki að það sé gert opinbert.

En það er gert ráð fyrir að forsætisnefnd geti lokið málum með margvíslegum hætti, allt eftir því hversu alvarleg þau eru. Allt frá því að fella niður mál sem reynist ekki vera innstæða fyrir, að brot hafi ekki átt sér stað, með því að eiga samskipti við viðkomandi aðila, hvetja hann til að bæta ráð sitt, með því að komast að niðurstöðu og eftir atvikum gera hana opinbera, eða ganga alla leið, sem væntanlega væri þá yfirleitt í málum af alvarlegra tagi, og virkja ráðgjafanefndina og fá frá henni álit og ljúka síðan málinu með það í höndum í forsætisnefnd. Almennt gerir maður þá ráð fyrir að það væru mál af alvarlegra taginu.

En eins og ég segi er þetta auðvitað eitt af því sem er mjög gott og gagnlegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari yfir.