148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þetta kærlega. Takk fyrir þessar spurningar og þessi svör sem hæstv. forseti þings hefur veitt hér. Ég leiði hugann að því líka varðandi möguleg viðurlög, þ.e. niðurstöðu máls sem birt er. En þetta eru auðvitað allt útfærsluatriði. Ég vil samt ekki hverfa hér úr ræðustól án þess að nefna það að sá sem hefur málið, málshefjandi eða sá sem telur að brotið hafi verið á sér, má síst af öllu upplifa það þannig að nafn viðkomandi verði sett fram þannig að það verði hreinlega íþyngjandi að tilkynna um brot á siðareglum. Það þarf líka alltaf að gæta þess að þetta sé allt gert í samráði við þann sem tilkynnir, því að þetta er líka mikil kúnst. Það er mikil kúnst að kvarta undan ósæmilegri hegðun. Það er einhverra hluta vegna, eins fáránlega og það hljómar, smættandi fyrir þann sem verður fyrir því að kvarta undan ofbeldi. Það er óþolandi staðreynd. Það er það sem er verið að reyna að breyta með allri þessari byltingu. En einhverra hluta vegna kemur það samt þannig út að sá sem tilkynnir ofbeldi eða vanvirðandi hegðun þarf að gera upp við sig: Ætla ég að vera þessi sem bendir á að þingmaðurinn hafi komið fram á þennan ömurlega hátt?

En þetta fer í áframhaldandi vinnu. Enn og aftur fagna ég þessu verkefni.