148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að segja að ég er bæði þakklátur og ánægður með að vera þátttakandi í að leggja þetta mál hér fram. Ég held að út af fyrir sig hafi ekkert okkar verið reiðubúið undir það sem við höfum fengið að heyra hér undanfarin misseri um kynferðislegt áreiti og dólgshátt víða um þjóðfélagið, í stjórnmálunum o.s.frv. Ég held því að það hafi verið rétt og góð ákvörðun að lýsa því yfir strax með þessari breytingu að Alþingi Íslendinga ætli ekki að þola slíka framkomu af þeim sem hér vinna, eiga sæti eða eiga leið um.

Það er svo aftur annað mál að í sjálfu sér sé ég ekki nauðsynina á því, hvað á ég að segja, að við víkkum þetta út. Ég er bara svo bæklaður að ég lít ekki svo á að ég sé alþingismaður bara þegar ég er inni í þessu húsi og ég held að við eigum ekkert að horfa þannig til. Við erum alþingismenn alls staðar, hvar sem við komum. Ég held að menn hljóti nú að gera það upp við sjálfa sig, þegar þeir gefa kost á sér í þetta starf, að þeir hagi sér nokkuð þokkalega hvar sem þeir koma og séu sjálfum sér og þeim sem veittu þeim umboð til nokkurs sóma.

Það sem er kannski líka atriði í þessu máli er það að til þess að bera virðingu fyrir öðrum þurfa menn að búa yfir sjálfsvirðingu, menn þurfa að búa yfir virðingu fyrir sjálfum sér. Ég held að menn geri það þá upp við sig hver og einn hvort að þeir kæra sig um að verða uppvísir að einhverju því sem hér er lýst. Ég held að við þurfum bara að hugsa það. Við getum þá líka lesið kærleiksboðorðið ef við erum að velta því fyrir okkur hvernig við viljum ganga fram bæði hér innan húss og annars staðar. Ég lít svo á að við séum út af fyrir sig aldrei í fríi, við alþingismenn. Við erum alltaf við störf hvar sem við erum staddir. Við erum alltaf fulltrúar þeirra sem veittu okkur brautargengi til að vera hér og við erum fulltrúar þingsins hvar sem við erum. Það þýðir einfaldlega að væntanlega troðumst við ekki fram fyrir í biðröðinni í versluninni eða höfum uppi annan dólgshátt enn verri, það er bara svoleiðis.

Ég held að það hafi verið alveg nauðsynlegt skref að Alþingi brygðist við. Ég tek undir það sem hv. þingmenn hafa sagt hér áður að ráðstefnan sem var haldin hér fyrr, rakarastofuráðstefnan, var afskaplega vel heppnuð. Hún er afskaplega gott form til þess að komast að kjarna máls. Að því leyti til tek ég undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að við gætum notað þetta form víðar, þ.e. um önnur mál og tekið svona djúpa umræðu eins og við gerðum þar. Ekki síst, eins og maður segir, í skjóli fyrir kastljósi. Ég held að það sé okkur nauðsynlegt að gera það, bæði með þetta mál og önnur mál, eftir því sem tíminn vinnst fram.

Ég segi aftur: Ég fagna því mjög að þetta mál skuli vera hér á dagskrá. Sem meðlimur í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hlakka ég til að fylgja málinu fram þar. Ef menn telja ástæðu til að bæta málið þá er ég viss um að nefndin mun gera það með því að fara vandlega yfir það og gefa sér góðan tíma til að gaumgæfa það. Að öðru leyti þá endurtek ég enn þá einu sinni að ég fagna framlagningu þessa máls.