148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans umræðu hér sem var mjög gagnleg og fróðleg. Það er mjög skemmtilegt að vera hér og velta þessu öllu fyrir sér með siðareglurnar. Mig langar aðeins að koma inn á þetta með gildissviðið. Í núgildandi siðareglum okkar segir, með leyfi forseta:

„Reglur þessar gilda um alþingismenn við opinbera framgöngu þeirra og snerta skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.“

Maður veltir einmitt þessu fyrir sér. Eiga þessar siðareglur eingöngu við þegar þingmenn eru í opinberum erindagjörðum? Erum við kannski komin á þann stað í þróun mannkynsins að siðareglur sem þessar, sérstaklega þegar um er að ræða þjóðkjörna fulltrúa sem gegna hér tímabundið störfum, um opinbera framgöngu eða óopinbera, skipta kannski engu máli? Það er auðvitað alltaf þessi umræða um hvenær menn eiga að fá að njóta friðhelgi einkalífs og allt það en fyrir marga er þetta tímabundið starf að vera hér þjónn almennings. Kann að vera að það sé í þágu almennings að þú bara hegðir þér samkvæmt þessum ekki svo flóknu siðareglum, jafnvel utan þings líka, jafnvel í óopinberum erindagjörðum?