148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti auðveldlega túlkað þetta gildissvið miklu víðar en það lítur út fyrir að vera, opinberar athafnir o.s.frv. Þegar einhver stoppar mig í búðinni og spyr mig að einhverju er hann frekar að spyrja mig sem þingmann en persónu. Við það verður þetta opinber athöfn að einhverju leyti. En það að skrá sig á einkamálasíðu eða eitthvað svoleiðis kemur kannski engum við og hefur alveg gerst og enginn kippir sér upp við það. Ég held að við séum kannski komin nær þeim stað þar sem fólk skilur betur hvað er einkamál og friðhelgað fremur en annað. Það verða alltaf einhvers staðar grá svæði á þeim mörkum sem við verðum örugglega að takast á við. Það kemur alltaf eitthvað nýtt. Ég gæti farið út í ýmsar tæknipælingar hvað það varðar, litlar myndavélar sem hafa verið settar í gleraugu og þá getur maður séð hver er fyrir aftan mann. Ég hef sett á mig gleraugu sem eru með andlitsskynjun, vísa alltaf fram, þú færð ákveðnar upplýsingar inn í glerið, hver þetta er, einhver vinur, en maður getur að sjálfsögðu beint myndavélinni aftur á bak og séð vin sinn fyrir aftan sig og ekki nóg með það heldur er hann að horfa á rassinn á þér. Þú veist það allt í einu. Þetta er aukavitneskja sem þú hafðir ekki möguleika á að komast að áður. Og þannig möguleikar breyta samfélaginu, gera það að grunni til. Við verðum tvímælalaust alltaf að skoða þessi mörk og hvar við erum sem opinberar persónur og hvar ekki. Ég hlakka til að halda þeirri umræðu áfram.