148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvenær er maður opinber og hvenær er maður ekki opinber? Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, það gerist æ oftar á þessum nýja vettvangi að ég er spurð um allt milli himins og jarðar, jafnvel við kjötborðið í kjörbúðinni. Eða yfir kaffibollanum á körfuboltaleiknum. Það er kannski bara sjarminn við þetta starf, að almenningur lítur svolítið á okkur sem sitt starfsfólk. Við stimplum okkur ekkert út. Það er kannski þess vegna sem það er líka ákjósanlegt að fólk líti á þetta sem ákveðinn viðkomustað á ferðum sínum.

Varðandi það að skrá sig á einkamálasíðu er ég aðeins að velta fyrir mér e-lið 5. gr. siðareglna þingmanna. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar: ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings …“

Maður veltir fyrir sér ef þingmaður skráir sig undir eigin nafni á slíka síðu, hvort hann sé með því að brjóta gegn þessum siðareglum.

En svo vil ég aðeins víkja að 2. mgr. 5. gr. þessara siðareglna, núgildandi. Það varðar varaþingmenn. Varaþingmenn undirrita ekki siðareglurnar fyrr en þeir hafa setið samfellt í fjórar vikur. Það er frekar undarlegt að mínu mati. Um leið og þú kemur hingað og ritar undir þetta drengskaparheit ertu orðinn þessi þjóðkjörni fulltrúi. Þú hefur tekið sæti á Alþingi. Þá held ég að við hljótum öll að vera sammála um að siðareglurnar eigi að gilda um viðkomandi einstakling eins og alla aðra sem hér eru.