148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:28]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mig langar líka að ræða annað við þingmanninn sem hann kom dálítið inn á í sínu máli. Það er í sambandi við viðurlög. Raunar hafa fleiri þingmenn komið aðeins inn á þau í ræðum sínum í dag, þ.e. með hvaða hætti sé hægt að beita viðurlögum. Hefur þingmaðurinn hreinlega einhverjar hugmyndir um eða ábendingar, væntanlega til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um með hvaða hætti væri hægt að velta upp slíkum möguleikum? Ég nefndi reyndar í ræðu minni áðan að þetta væri nokkuð sem hv. nefnd þyrfti að skoða. Eins og þingmaðurinn gerir sér grein fyrir er þetta alls ekki einfalt. Ef maður reynir að rýna í stjórnarskrána sér maður að það þarf býsna mikið að ganga á til að t.d. sé hægt að rýra umboð þingmanns með einhverju móti eftir að hann hefur verið kjörinn. Það eru alls konar lög í gangi sem til að mynda banna að menn afsali sér launum eða tekjum eða að það verði að koma fram við alla þingmenn með sama hætti o.s.frv. Ég sé það ekki sem eitthvert áhlaupaverk að finna leiðina í því og mig langaði þess vegna að spyrja þingmanninn hvort hann gæti hjálpað þingheimi í þessu tilliti.