148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er risastóra spurningin sem allir hafa reynt að svara. Það eina sem mér hefur orðið ágengt í mínum pælingum, líka á undanförnum árum, varðandi þetta er að þegar ég skrifa undir siðareglur ætti ég einnig að vera að kvitta undir ákveðin viðurlög. Þá er það upplýst samþykki mitt að brjóti ég siðareglur gangist ég undir þau viðurlög sem er kveðið á um. Þau geta verið mismunandi. Augljósust finnst mér afsögn en það á kannski ekki við í öllum tilvikum, ég veit það ekki.

Ég hef áður tekið dæmi um þingfararkaupið, hvernig það er og hvernig þingmenn geta tæknilega séð bara farið til Majorka eða álíka og verið þar í fjögur ár. Það er ekkert hægt að gera við því, ekki neitt. Það finnst mér augljóst brot á siðareglum. Þetta er samt gert, norður-írskir þingmenn sem fara á breska þingið sniðganga það viljandi, fara beinlínis í kosningabaráttu með það að markmiði að segjast ekki ætla að taka sæti á þingi. Svo eru þeir kjörnir á þing og mæta ekki. Þannig uppfylla þeir kosningaloforð og menn brjóta ekki siðareglur þannig. En þetta er eina lausnin sem ég sé, að á sama tíma og maður skrifar undir siðareglur skrifi hann undir viðurlög sem hann ætlar að fylgja. En þar kemur vandkvæðið, við erum í ákveðinni sjálfsskoðun með forsætisnefnd þar sem það geta verið alls konar aðrar ástæður fyrir því að einhver sé sagður hafa brotið siðareglur en eru í raun.