148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði fyrst og fremst að þakka fyrir prýðilega og gagnlega umræðu. Ég fagna því að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur setið hér með okkur og tekið þátt í umræðunni og heyrt það sem hv. þingmenn hafa lagt í púkkið sem er gagnlegt, væntanlega, fyrir nefndina þegar hún tekur málið til skoðunar.

Í fyrsta lagi: Ég hef nú brugðist við ýmsum þáttum áður í andsvörum, en ég vil nefna að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir tók einmitt upp mikilsverðan punkt sem er sá að gæta þarf að stöðu þess sem kvartar eða sendir inn ábendingu um mögulegt brot eða eitthvað sem varðar siðareglur. Við getum kallað það uppljóstrarann eða eftir atvikum þolanda. Það er einmitt hugsað fyrir því og ætlunin að menn geti farið mjög vel með það mál þannig að þess sé algerlega gætt að það komi ekki niður á þeim sem vekur athygli forsætisnefndar á að eitthvað slíkt kunni að hafa átt sér stað.

Í öðru lagi hafa nokkrir þingmenn nefnt hér hvernig eigi að standa að skráningunni og eftir atvikum endurnýjun skuldbindingarinnar. Á til dæmis að gera það í upphafi hvers kjörtímabils eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson upplýsir að sé gert í Kópavogi? Svo hafa menn nefnt þessi ákvæði sem eru í gildandi reglum um varaþingmenn.

Ég held að ég kunni skýringar á af hverju sú regla er eins og hún er. Það er væntanlega vegna þess að menn notuðu sömu viðmið og varðandi reglur um hagsmunaskráningu. Þetta er algerlega samhljóða því sem gildir um hagsmunaskráningu, að þingmenn skuli skrá hagsmuni sína ef þeir sitja fjórar vikur samfellt eða meira. Það er alls ekki sjálfgefið að sama eigi að eiga við um siðareglurnar. Þess vegna nefndi ég nú strax í andsvörum eða í framsöguræðu minni, hvort heldur var, að þetta væri eitthvað sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mætti gjarnan skoða. Mín persónulega skoðun er sú að eðlilegast sé að menn undirriti þetta strax, að mönnum sé gert að kynna sér reglurnar og undirrita þær um leið og þeir hefja hér störf.

Þá kemur í þriðja lagi að því sem margir hafa nefnt og tengist tilganginum með þessu. Hann er auðvitað miklu víðtækari en ætla mætti af orðanna hljóðan í reglunum, að þær séu eingöngu til þess að búa til ákveðnar samskiptareglur sem menn eigi að fara eftir og séu bundnir af. Auðvitað er siðareglum og ýmsu fleiru sem hefur verið að ryðja sér rúms á síðustu árum og áratugum í starfi þjóðþinga rétt eins og víðar í samfélaginu ætlað miklu víðtækara hlutverk, þ.e. að bæta menningu, andrúmsloft eða umhverfi. Það tengist því sem margir hafa komið hér inn á, að menn eigi að bera virðingu fyrir sjálfum sér og því starfi sem þeir sinna, samstarfsfélögum sínum, vinnustaðnum o.s.frv.

Þá kem ég að því fjórða sem ég vildi nefna, þ.e. spurningunni um gildissviðið eða hvenær menn séu bundnir af siðareglunum og hvenær ekki. Ráðgjafarnefndin kom einmitt með gagnlega ábendingu í sinni umfjöllun um niðurstöður starfshópsins sem vann þetta verk í byrjun; að ástæða væri til að árétta og útvíkka það að siðareglurnar gildi að sjálfsögðu ekki bara innan húsakynna Alþingis heldur hvar þar sem þingmaður er að störfum, er á vegum Alþingis eða er að sinna skyldum sínum sem slíkur. Jafnt á fundum úti um landið eða erlendis og alls staðar þar sem þeir eru í starfi sínu sem slíkir eins og ég sagði í framsöguræðu minni.

Þá komum við að öðru sem er það að þingmenn eru auðvitað þingmenn — jafnvel þó að þeir séu einhvers staðar á ferðalagi sem einstaklingar eru þeir áfram þingmenn. Þetta er svolítið hliðstætt spurningunni um það sem fjölmiðlar hafa glímt við, t.d. í Bretlandi: Hvenær á að greina frá einhverju sem þingmaður segir eða sést gera og hvenær ekki? Hvar liggja hans friðhelgismörk sem einstaklings? Bretarnir hafa tiltölulega skýra viðmiðun í þessum efnum. Nú ætla ég að forðast að fara að sletta erlendri tungu og reyna þá að þýða þetta: Það eru fjölmiðlarnir sem fjórða valdið sem taka sér það vald sem þeir telja sig hafa, þegar þeir telja það réttlætanlegt, og þeir nálgast málin oft þannig — og þetta hefur maður séð í umfjöllun um stjórnmálamenn, t.d. í breskum fjölmiðlum, sem vissulega ganga langt og eru vissulega kröfuharðir og aðgangsharðir — að segja ósköp einfaldlega: Opinber persóna á opinberum vettvangi eða á almannafæri er opinbert mál. Og þeir hika ekkert við að segja frá því sem þeir sjá og heyra við slík tilvik. Og í raun og veru hallast ég að því að þetta sé viðmið sem við getum haft í huga; að þjóðkjörinn fulltrúi á almannafæri sé opinbert mál og hans framganga. En það gildir að sjálfsögðu ekki um hann sem einstakling og persónu innan veggja síns heimilis eða í hans fjölskyldu eða á lokuðum vettvangi, segjum með gömlum skólafélögum eða eitthvað slíkt. Það er ekki lengur opinbert mál því að það er ekki á opinberum vettvangi, ekki á almannafæri.

Auðvitað má alveg fara yfir þetta og skoða allt saman. En menn verða að hafa í huga, eins og þingmenn hafa aðeins bent á hér, að við þurfum síðan að lesa saman friðhelgi þingmannsins og rétt hans sem kjörins fulltrúa. Það er ekki að ástæðulausu að stjórnarskrá og lög kveða á um þá friðhelgi. Hinum megin lúrir hættan á því að menn misnoti það. Ef menn hefðu heimildir til að grípa inn í gagnvart þingmanni á ómálefnalegum forsendum kemur að því að hann þarf að vera varinn í sínum störfum, hann á að vera friðhelgur. Hann á ekki að gjalda þess sem hann segir. Þingið þarf sjálft að hlutast til um það ef á að upphefja þessa friðhelgi.

Þá gætum við líka velt fyrir okkur skyldum þingmanns. Hvar vegast þær á við siðareglur o.s.frv., eins og nokkrir hafa nefnt hér í málinu.

Ég er síður en svo á móti því að þetta verði allt saman skoðað og rætt. Ég leyfi mér þó í allri vinsemd að segja að lokum að ég vona að slíkt leiði ekki til þess að tefja um of framgang þessa máls. Ég held að þær breytingar sem við erum hér að leggja til við gildandi siðareglur séu brýnar og við eigum að stefna að því að afgreiða þær fyrir vorið.