148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta þings kærlega fyrir ræðuna. Örstutt um það hver er opinber persóna, ég mundi allt í einu eftir því að það hefur heldur betur verið fjallað um það fyrir dómi, bæði innan lands og hjá Mannréttindadómstól Evrópu, að opinber persóna getur í rauninni ekki orðið óopinber persóna bara af því að henni sýnist svo akkúrat á þeirri stundu. Mögulega á annað við innan fjögurra veggja heimilis, eins langt og það nær, en það eru einmitt ítrekuð dómafordæmi fyrir því að sé maður opinber persóna þurfi hann að þola að um hann sé fjallað, um gjörðir hans og það sem hann segir. Einmitt þess vegna ættu siðareglurnar að ná til þingmanna á meðan þeir gegna þeim störfum, hvort sem þeir eru í sólarlandaferð á Tenerife, í einhverjum af húsum Alþingis eða í opinberri heimsókn einhvers staðar úti í heimi.